Þessi uppskrift kemur nánast beint upp úr Delia Smith grænmetisbókinni minni (Delia’s Vegetarian Collection) sem er frábær. Mæli alveg með henni. Ég steikti reyndar ekki upp úr smjöri og ég notaði léttmjólk í stað nýmjólkur. Mín súpa varð ljósari en súpan hennar Deliu (svona fyrir utan að vera örugglega photoshopuð þ.e. breytt) þá grunar mig að graskerið sem ég notaði hafi ekki verið alveg fullkomlega ferskt (var sko að prófa grasker í fyrsta skipti með þessari súpu) svo súpan á líklega að verða aðeins appelsínugulari. Súpan sjálf er prýðisgóð og þetta er frekar stór uppskrift sem dugar manni í marga daga. Ódýr en seðjandi matur og fullkomið að búa til brauðbollur með til að dýfa í súpuna á köldum haustdegi. Grasker er mjög hollt að sjálfsögðu, fullt af Beta-Carotine sem er andoxunarefni sem hjálpar okkur að sporna t.d. gegn krabbameini. Svo getur maður ristað graskersfræin og notað þau í brauð eða ofan á salat, ekki amalegt það enda eru þau svo holl að maður ætti að borða þau á hverjum einasta degi. Þau innihalda m.a. prótein, kalíum, zinc, járn og hollar fitusýrur. Zinc er sérstaklega gott fyrir karlmenn! Ef þið fáið stórt grasker getið þið saxað það og og fryst til að nota afganginn í kryddað graskersbrauð eða meiri súpu.
Graskerssúpa með grilluðum maískornum
Fyrir 3-4 sem aðalréttur
- 700 gr grasker, afhýtt, fræhreinsað og saxað í 2,5cm bita (eða sætkartafla)
- 570 gr maískorn, frosin (eða fersk). Athugið að aðeins helmingurinn er notaður fyrst.
- 1 tsk kókosfeiti eða ólífuolía
- 1 laukur, saxaður
- 275 ml léttmjólk
- 725 ml grænmetissoð með Rapunzel grænmetisteningum (2 ættu að vera nóg)
- Heilsusalt (Herbamare)
- Svartur pipar
- Smávegis tamarisósa (fyrir maískornin)
Aðferð:
- Hitið kókosfeiti eða ólífuolíu í potti og steikið laukinn í um 8 mínútur eða þangað til hann er orðinn mjúkur.
- Bætið saxaða graskerinu út í ásamt helmingnum af maískornunum.
- Hrærið vel og saltið og piprið.
- Lækkið hitann og leyfið grænmetinu að svitna aðeins eða í um 10 mínútur.
- Bætið mjólkinni út í ásamt grænmetiskraftinum og látið malla með lokið ofan á (ekki samt loka alveg því mjólkin getur auðveldlega soðið upp úr. Fylgist því vel með pottinum og ekki fara frá honum).
- Á meðan þetta er að malla skuluð þið stilla ofninn á hæsta hitastig (um 250°C).
- Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og dreifið afgangnum af maískornunum á bökunarpappírinn. Dreifið vel.
- Setjið bökunarplötuna í um 3 cm. fjarlægð frá mesta hitanum (yfirleitt efst uppi í ofninum).
- Hitið í um 8 -10 mínútur. Hrærið aðeins í þeim eftir um 4 mínútur.
- Þegar maískornin eru orðin gullbrún má taka þau úr ofninum.
- Skvettið strax smávegis af tamarísósu yfir (um 1 msk eða svo) og nuddið maískornunum aðeins upp úr sósunni. Einnig má salta þau ef ykkur þykir það þægilegra. Slökkvið á ofninum og setjið baunirnar aftur inn í hann. Leyfið þessu að standa í nokkrar mínútur.
- Þegar súpan er tilbúin skuluð þið nota töfrasprota eða matvinnsluvél til að blanda súpuna. Þið ráðið hvort hún er alveg maukuð eða með smá bitum í.
- Berið fram í skálum og dreifið bökuðu maískornunum yfir. Ekki gleyma þeim, því þau eru æði!!!!
- Til að grilla graskersfræ (til að nota seinna) skuluð þið hreinsa graskerskjötið af fræjunum, dreifa þeim á bökunarplötu og baka við um 150°C í um 45-50 mínútur. Hrærið í þeim eftir um 20 mínútur. Gott er að dreifa smá tamarísósu yfir fræin um leið og þau koma úr ofninum, nudda þeim aðeins í sósuna og leyfa þeim að kólna svoleiðis. Fullkomið í salatið eða sem hollt snakk! Ef þið saltið ekki graskersfræin getið þið notað þau út á morgunmat eða t.d. í brauð (nú eða yfir salat!)