Árni Johnsen útvegar 10 flatskjái í Hegningarhúsið
17. október, 2007

„Þetta er mikill myndarskapur og við kunnum honum bestu þakkir fyrir þetta,” segir Gunnar Valur Jónsson,
fangavörður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Fangelsið fékk heldur óvænta gjöf nýverið.Þingmaður Sunnlendinga, Árni Johnsen,kom færandi hendi og gaf fangelsinu tíu litla flatskjái. Sjónvörp hafa ekki verið sjálfsagður hlutur í vistarverum Hegningarhússins og segir Gunnar að þetta eigi eftir að breyta heilmiklu fyrir andrúmsloftið.

    „Svona gjöf nýtist okkur mjög vel,” segir Gunnar en í fangelsinu hafa einungis verið tvö til þrjú sjónvörp til afnota og svo hafa fangar komið með sjónvarpstæki heiman frá sér. Jafnframt bendir hann á að minni eldhætta stafi af flatskjám þannig að þetta sé allt hið besta mál. „Og fangarnir hérna voru auðvitað himinlifandi með þetta,” bætir hann við.
    Árni sjálfur vildi sem minnst um gjöfina segja þegar Fréttablaðið náði tali af honum en vonaðist að sjálfsögðu til að hún myndi nýtast vel. „Auðvitað er ótrúlegt að mikið af þessum mönnum skuli ekki hafa þennan „glugga” út í samfélagið,” segir Árni. Hann vildi hins vegar lítið gefa upp um hverjir hefðu verið með honum í þessari gjöf, sagðist bara hafa frétt af þessu og í kjölfarið ákveðið að vinna í þessu. „Og þegar margir leggjast á eitt þá er hægt að gera ýmislegt,” segir Árni.
    Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Árni Johnsen lætur til sín taka í málefnum fanga. Þegar hann sat sjálfur á Kvíabryggju fyrir nokkrum árum gekk hann hart fram í því að skipt yrði um rúm í fangelsinu. Það hafðist í gegn en þá höfðu fangar notast við sömu beddana í sautján ár. Eftir að Árni kom til sögunnar voru hins vegar fengin ný og þægilegri rúm frá Ragnari Björnssyni.

 

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst