Hermann Hreiðarsson var ekki með í tapinu á móti Lettum á laugardaginn og var sárt saknað í íslensku vörnini. Hann vildi lítið tjá sig um þann leik á blaðamannafundi í gær.
„Sá leikur er bara búinn. Við erum hundsvekktir með úrslitin en nú er bara kominn nýr leikur og það er gott að fá tækifæri til að leiðrétta þetta strax. Það er ekkert hægt annað að fara fram á sigur hérna og við spilum líka til sigurs og ekkert annað. Við ætlum að einbeita okkur að okkar leik og ef að við spilum vel þá vinnum við þennan leik,” segir Hermann.
Hermann var fyrst í byrjunarliði íslenska landsliðsins í keppni þegar Ísland vann 4-0 í Liechtenstein fyrir tíu árum. „Það vannst mjög góður sigur þegar maður var hérna síðast. Þeir hafa tekið miklum framförum síðan en það hefur við kannski gert líka,” segir Hermann sem telur vera mjög mikilvægt að byrja vel.
“Við förum jákvæðir og vel undirbúnir inn í þennan leik. Við ætlum ekki að gefa nein færi á okkur. Við ætlum að koma sterkir inn í leikinn og sýna það strax frá fyrstu mínútu hverjir það eru sem ætla að stjórna þessum leik,” segir Hermann og bætir við „Við erum með miklu sterkara lið á pappírnum og ef við náum að skila því sem hægt er að ætlast til þá eigum við að vinna svona leiki,” segir Hermann sem hefur engar áhyggjur af því að Ísland skori í kvöld en mestu skipti að vörnin verði í lagi. Þar hefur Hermann mikið að segja og það skiptir liðið mjög miklu máli að hann sé kominn aftur úr leikbanninu.
„Hermann er meiriháttar leikmaður og kemur með mikinn anda inn í liðið,” sagði Eiður Smári Guðjohnsen landsliðsfyrirliði.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst