Alþingi hefur tekið til starfa að nýju eftir stutt sumarþing og nú fá nýkjörnir þingmenn að láta ljós sitt skína. Staða suðurkjördæmis er sterkari nú en hún var fyrir síðustu kosningar þegar kjördæmis hafði einungis einn ráðherra í ríkisstjórn. Nú eru tveir ráðherrar úr kjördæminu og sex þingmenn kjördæmisins teljast stjórnarþingmenn.
www.eyjar.net sendu nokkrar spurningar á þingmenn kjördæmisins um nýbyrjað þing og hvaða málefni þeir setja á oddinn tengdum Vestmannaeyjum.
Við birtum í dag svör Atla Gíslasonar þingmanns VG
Nú eru alþingismenn ný sestir í þingsal eftir sumarleyfi, hvaða þingmál verða mest áberandi á þessu þingi sem nú er að hefjast?
Þau mál sem ég tel að verði og eigi að verða mest áberandi á komandi þingi varða framtíð landsbyggðarinnar, einkavæðingu samfélagsþjónustu, allrar grunnþjónustu, sem reynslan sýnir að bitnar verst á íbúum dreifbýlisins, fiskveiðistjórnunarkerfið, jafnréttismálin og virkjanamál, einkum varðandi Þjórsá, og stóriðjan. Ég verð líka að nefna samgöngumál, þar með taldar háhraðatengingar og farsímaþjónusta, heilbrigðismál og aðbúnað barna og aldraðra í víðum skilningi.
Eru einhver mál sem þú ætlar að beita þér sérstaklega í á komandi þingi?
Ég mun ásamt flokkssystkinum mínum í VG beita mér í öllum þessum málaflokkum bæði almennt séð og með tillöguflutningi. Ýmsar tillögur okkar hafa þegar séð dagsins ljós eins og heimasíða Alþingis ber með sér. Það blasir við að íbúum landsbyggðarinnar er mismunað, þeir sitja ekki við sama borð og íbúar á suðvesturhorni landsins þrátt fyrir jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það reynir hreinlega á það á komandi þingi hvort ríkisstjórnin vilji halda uppi byggð í öllu landinu. Sá vilji virðist ekki vera fyrir hendi í verki, það sýnir kvótaskerðingin og svokallaðar mótvægisaðgerðir við henni.
Ertu sáttur við mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar er lúta að Vestmannaeyjum?
Ég er afar ósáttur við mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar, gildir það jafnt um Vestmannaeyjar sem aðrar sjávarbyggðir. Staða landsbyggðarinnar fyrir kvótaskerðinguna var slæm og sveitarfélögum haldið í viðvarandi fjársvelti. Mótvægisaðgerðirnar leiðrétta engan veginn þá mismunun sem íbúar landsbyggðarinnar bjuggu og búa við hvað þá að bæta upp að bæta upp kvótaskerðinguna sem gerði illa stöðu ennþá verri. Ég hef sagt það og segi enn að fiskveiðistjórnunarkerfið er gjaldþrota. Göfug markmið þess hafa snúist upp í andhverfu sína. Í stað þess að vernda og efla nytjastofna er þorskstofninn o.fl. stofnar í sögulegu lágmarki, í stað traustrar atvinnu blasir við atvinnuleysi hjá sjómönnum og fiskverkafólki og í stað traustrar byggðar í landinu er viðvarandi fólksflótti staðreynd. Reynslan sýnir að brýn þörf er á allsherjarendurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Hvernig fannst þér tillögur bæjarráðs Vestmannaeyja um þær mótvægisaðgerðir er tengjast Vestmannaeyjum?
Frá Vestmannaeyjum og fleiri sjávarbyggðum bárust ítarlegar, faglegar og rökstuddar tillögur um mótvægisaðgerðir. Ég studdi þessar tillögur og tel heimamenn best fallna til þess að greina vanda sveitarfélaga sinna og gera tillögur til úrbóta. Ríkisstjórnin var ekki sama sinnis og setti fram miðstýrðar, almennar og Reykjavíkurhugsaðar tillögur sem leysa ekki vanda sjávarbyggða. Lítt var farið eftir tillögum frá Vestmannaeyjum og samráð í skötulíki. Og engin áform eru uppi um að styrkja tekjustofna sveitarfélaga þannig að þau geti sinnt samfélagslegum skyldum sínum.
Það nöturlegast við allt þetta mál er að ríkisstjórnin býður nú fram brottflutningsstyrki til íbúa landsbyggðarinnar til að auka fólksflóttann í stað þess að efla atvinnutækifæri í heimabyggð. Fjölmörg atvinnutækifæri blasa við en okurvextir einokunarbankanna, um eða yfir 20% raunvextir koma í veg fyrir að unnt sé að hrinda þeim í framkvæmd. Það má auðveldlega stórefla atvinnu á landsbyggðinni ef íbúum þar verður gefinn kostur á þolinmóðu fjármagni til langs tíma á heilbrigðum vöxtum.
Hver er afstaða þín til Bakkafjöru og frekari rannsókna á jarðgöngum milli lands og eyja?
Það veldur mér miklum vonbrigðum að ríkisstjórnin skuli ekki hafa gert gangskör að því að aflétta átthagafjötum Eyjamanna í samgöngumálum. Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um höfn í Bakkafjöru, en því miður var þeim framkvæmdum ekki hraðað í kjölfar kvótaskerðingarinnar eins og lá beint við. Á þetta mál verður þrýst af stjórnarandstöðunni. Samgönguráðherra, Kristjan Möller, kaus fremur að leggja hundruð milljóna í samgöngubætur í kjördæmi sínu, góð og gild verkefni en alls ekki jafn brýn og að höggva á samgöngufjötra íbúa Vestmannaeyja. Ég var og er þeirrar skoðunar að jarðgöng séu traustari og hagkvæmari til langs tíma litið og tel einsýnt að leggja eigi fé til ljúka rannsóknum á jarðgöngum. Því mun ég fylgja eftir. Ég hef hins vegar lengi haft þá á tilfinningunni að ríkisstjórnin og ráðamenn samgöngumála hafi fyrir löngu dæmt jarðgöng úr leik án þess að vilja kanna forsendur þeirra til hlítar. Kosningaloforð Samfylkingarinnar voru innantómt fleipur.
Fleiri brýn úrlausnaefni blasa við í Vestmannaeyjum. Ég nefni þar málefni Skipalyftunnar, en afgreiðsla þess máls hefur dregist úr hömlu. Þá er afar brýnt að endurnýja vatnsleiðslurnar til Eyja, einkum þá stærri sem gæti gefið sig fyrirvaralaust með afdrifaríkum afleiðingum fyrir fiskvinnsluna. Ég nefni einnig stórskipahöfnina, eflingu heilsugælunnar og menntunarmál, sérstaklega menntun sjómanna og fiskverkafólks og svo mætti lengi telja.”
Með bestu kveðju,
Atli Gíslason.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst