Mér finnst málefnaleg umræða um framtíðarsamgöngur milli lands og Eyja vera af hinu góða varðandi fyrirhugaðar áætlanir í þeim efnum. Grein Gísla fellur engan vegin undir þá skilgreiningu.
Greinin hefst á þeirri fullyrðingu að ný ferja muni að öllu jöfnu sigla á 2 tímum milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Þetta ætti Gísli, sem gamall skipstjóri, að vita að er ansi miklum annmörkum háð. Að sigla skipi á rúmlega 20 sml. ferð. (líklega allt að 25 sml ferð ef tímaáætlun Gísla á að standast) getur varla talist góð sjómennska ef farþegar eiga að geta haldið sjálfsvirðingu sinni í þeim sjógangi sem oft er hér á þessari sjóleið.
Sú fullyrðing Gísla að hálftíma akstur sé frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur (51km) miðast við að meðalhraði alla leiðina sé 102 km/klst. Ég keyri nú reyndar yfirleitt heldur hægar en þetta en látum það liggja milli hluta og lítum þannig á að sú sé raunin að um hálftíma akstur sé að ræða. Miðað við sama meðalhraða þá tekur það 1 klst. og 20 mín. að aka frá Reykjavík og á Bakka sem er 134 km leið en ekki 2 klst. eins og Gísli heldur fram í sinni grein. Það tekur síðan ferjuna 30 mín., eins og Gísli bendir réttilega á, að sigla milli lands og Eyja.
Þannig erum við að tala um 1 klst. og 50 mín. sem tekur ferðalang að komast milli höfðuborgarinnar og Vestmannaeyja, ferðist hann með ferju í Bakkafjöru á móti u.þ.b. 3 tímum (3 tímar og 20 mín. miðað við Herjólf í dag) að ferðast með nýjum Herjólfi til Þorlákshafnar og fara síðan Þrengslin.
Stærsti kosturinn við Bakkafjöru er síðan ferðatíðnin en möguleiki verður með ferju í Bakkafjöru að sigla allt að 12 ferðir á sólarhring fram og til baka milli lands og Eyja, miðað við þær þrjár ferðir sem í dag eru mögulegar. Þetta er stærsti kosturinn við ferjulægi í Bakkafjöru og gerir þeim sem komast þurfa á milli lands og Eyja, kleift að haga ferðaáætlun sinni meira eftir eigin þörfum heldur en áætlun skipsins. Þannig verður á 2 klst. fresti hægt að fara til eða frá Eyjum í stað þess að þurfa að fara annað hvort kl. 8 eða 16 frá Eyjum eða 12 eða 19:30 til Eyja eins og ferðum er háttað í dag.
Þá telur Gísli að rútufar muni kosta eitthvað á 4. þús króna milli Bakka og Reykjavíkur. Sú tala er í engu samræmi við samgöngur á Íslandi í dag og er einungis framsett í grein Gísla sem hreinar ýktar getgátur til þess eins að kasta rýrð á þá framkvæmd sem gerð ferjulægis í Bakkafjöru er. Miðað við verðskrá hjá Þingvallaleið sem sér um akstur á þessum slóðum, má telja líklegt að fargjaldið verði nær 2500 krónum.
Gísli gagnrýnir verkfræðinga Siglingastofnunar í grein sinni. Þar heldur hann því fram að nægilegar mælingar hafi ekki farið fram á sandburði við Bakkafjöru. Þarna þurfi að koma til GPS mælingar sem ekki hafi verið framkvæmdar. Gísli er reyndar eini maðurinn sem ég hef heyrt tala um þessar mælingar og veit ég ekki til þess að hann sé sérfræðingur um gerð hafnarmannvirkja yfirleitt. Ég ætla ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr reynslu Gísla sem sjómanns og skipstjóra og veit að hann stóð sig afskaplega vel í því starfi. Hitt er annað að ég ber fullt traust til þeirra manna er vinna að því hörðum höndum að koma samgöngum milli lands og Eyja í betra horf en við þekkjum í dag. Þar með taldir eru verkfræðingar Siglingastofnunar sem ekki eru að vinna að hafnargerð í fyrsta skipti.
Það er orðið einkennisorð þeirra er standa í vegi fyrir framförum á Íslandi í dag að hrópa Grímseyjarferja, Grímseyjarferja. Vissulega er Grímseyjarferju-ævintýrið víti til að varast. En það þýðir þó ekki að hægt sé að spyrða það klúður við allar framkvæmdir á Íslandi í dag og mætti ég þá benda mönnum á að líklega yrði nýr Herjólfur hrikalegt klúður svo ég tali nú ekki um hugmyndir manna um að hafa ferjurnar tvær í siglingum milli lands og Eyja. Það yrði þá væntanlega tvöfalt klúður.
Það sem stingur mig þó mest í grein Gísla er sú fullyrðing hans að Vestmannaeyingar sem eiga sumarhús í Rangárþingi séu sá hópur sem sæki að fá ferjuhöfn í Bakkafjöru. Mikil mega völd þess hóps vera mikil ef rétt er. Mér finnst svona málflutningur fyrir neðan allar hellur og ekki manni eins og Gísla Jónassyni (sem ég met mikils) sæmandi. Það ætti ekki að vera mikið mál fyrir Gísla að nafngreina þessa menn sem eiga þarna hagsmuna að gæta í stað þess að vera með dylgjur um þessi mál og skora ég hér með á þig Gísli að láta uppi nöfn þessara manna sem þú telur vinna að þessum málum eftir eigin hagsmunum.
Greinar, sem þessi grein Gísla, eiga engan rétt á sér í umfjöllun um jafn samfélagslega mikilvæg mál og samgöngur milli lands og Eyja eru. Röngum fullyrðingum er slegið fram sem sannar væru og er enginn efi í mínum huga að Gísli veit að hann fer þarna með rangt mál. Því þó hann sé þver þá er hann langt í frá vitlaus og getur auðveldlega reiknað þessar tölur rétt ef hann kærir sig um það. Umræður um þessi mikilvægu mál eru af hinu góða, en þá verða menn að fara með rétt mál og fullyrðingar eins og sú að nokkrir Vestmannaeyingar sem eiga sumarhús í Rangárþingi, séu sá hópur sem fastast sæki að fá þessa höfn, eru bæjarfélagi okkar ekki til framdráttar og ritara greinarinnar langt í frá til sóma.
Jarl Sigurgeirsson.
Höfundur er fyrrverandi skipstjóri og einn þeirra sjómanna sem telur höfn í Bakkafjöru góðan kost í samgöngumálum Vestmannaeyinga. Þá má einnig benda á að höfundur á ekki sumarhús í Rangárþingi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst