Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum undrast að rætt sé um að einkaaðilar eigi
höfn í Bakkafjöru. Aðstoðarmaður samgönguráðherra segir rekstraraðila Vestmannaeyjaferju ekki munu eiga höfnina sjálfa heldur aðstöðu fyrir farþega.
„Þetta eru nýjar fréttir fyrir okkur,” segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sem undrast að Siglingastofnun segi koma til greina að rekstur ferjuhafnar í Bakkafjöru verði í höndum einkaaðila.
Í nýlegri auglýsingu útboðs vegna reksturs og eignarhalds á ferju milli Bakkafjöru og Eyja segir
hugsanlegt að rekstur hafnar í Bakkafjöru verði innifalinn í útboðsverkefninu.
„Hingað til hefur verkefnið verið kynnt þannig fyrir okkur að höfnin verði í meirihlutaeigu Vestmannaeyjabæjar og rekin í samstarfi Vestmannaeyjabæjar og Rangárþings eystra. Og við stefnum ótrauð á það,” segir Elliði, sem kveður Eyjamenn þegar hafa gert athugasemd við auglýsinguna.
„Ég held að menn séu reyndar bara að skoða þennan flöt og á ekki von á öðru en að menn verði við beiðni okkar um að höfnin verði í okkar rekstri. Þetta verður sérhannað ferjulægi fyrir Vestmannaeyjaferjuna og við erum það sveitarfélag í landinu sem hefur mesta og bestu reynslu af rekstri hafnar,” segir Elliði og upplýsir að Vestmannaeyjabær vinni nú að stofnun sameiginlegs hafnarsjóðs með Rangárþingi eystra.
Siglingastofnun heyrir undir samgönguráðuneytið. „Þetta virðist sprottið af misskilningi. Það myndi aldrei koma til að einkaaðili ætti höfnina heldur er verið að horfa til þess að rekstur mannvirkjanna við höfnina færi til þess aðila sem hefði með rekstur ferjunnar að gera,” segir Róbert Marshall, aðstoðarmaður Kristjáns L. Möllers samgönguráðherra. Meðal mannvirkja sem ferjufyrirtækið myndi annast eru rampart fyrir bíla og aðstaða fyrir farþega að sögn Róberts. Gert er ráð fyrir að fyrirtækið myndi sjálft eiga ferjuna.
„Hugmyndin er að nota sérþekkingu markaðarins á skiparekstri,” segir Róbert, sem leggur áherslu á að í samningi um rekstur Vestmannaeyjaferjunnar verði ákvæði sem taki á hugsanlegum vanefndum af hálfu verktakans og sömuleiðis ákvæði sem taki til breyttra aðstæðna sem kunni að koma upp á þeim fimmtán árum sem útboðstíminn tekur til.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst