Kona á fertugsaldri höfuðkúpubrotnaði þegar hún var slegin í höfðið með gleröskubakka í heimahúsi í Vestmannaeyjum að morgni sunnudags, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.
Konan leitaði til læknis að kvöldi sunnudags og var í framhaldi af því lögð inn á sjúkrahús vegna áverkanna. Hún var hins vegar ekki talin hættulega slösuð og er komin heim af sjúkrahúsinu. Sá sem grunaður er um árásina var handtekinn skömmu síðar á veitingastað í bænum og var í haldi lögreglu þangað til í gær. Um er að ræða karlmann á fertugsaldri og var hann látinn laus að skýrslutöku lokinni.
Framburður aðila um atburði er mjög óljós og hefur konan ekki enn viljað leggja fram formlega kæru. Lögregla rannsakar samt sem áður málið áfram þar sem um beinbrot er að ræða.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst