Nú virðist sem umræðan um Bakkafjöru sé komin á fullt. Sitt sýnist hverjum um framkvæmdina og ekkert nema gott um það að segja. Bakkafjara hefur og verður umdeild framkvæmd, alveg þangað til hún er tilbúinn til notkunar. Þetta er ekki fyrsta framkvæmd Íslandssögunnar sem veldur slíkum deilum. Skemmst er að minnast „hins stórbrotna klúðurs” sem Hvalfjarðargöngin áttu að vera.
Við Eyjamenn vitnuðum oft í heimsendarspár manna sem tjáðu sig um Hvalfjarðargöngin á sínum tíma þegar við vorum að tala fyrir jarðgöngum. Í raun eiga sömu rök við þegar talað er um Bakkafjöru.
Það voru þung orð sem féllu í aðdraganda Hvalfjarðarganganna. Setningar eins og „óðs manns æði”, „martröð allra þjóðarinnar á komandi árum”, „eitt mesta umhverfisslys landsins” og „dragbítur á þjóðfélagið” svo fátt eitt sé nefnt.
Á dómsdagsspár þessara manna var ekki hlustað heldur var því treyst að þeir verkfræðingar og aðrir sem að verkinu komu væru að vinna vinnuna sína. Þeir lögðu verkvit sitt undir framkvæmdina. Að tókst dæmalaust vel til.
Menn eru misjafnlega harðir í afstöðu sinni með og á móti Bakkafjöru. Þeir sem harðast hafa gengið gegn Bakkafjöru hafa krafist atkvæðagreiðslu í bænum. Hvort fólk vilji Bakkafjöru eða nýjan hraðskreiðan Herjólf.
Var ekki búið að kjósa um þetta mál?
Eitt aðalmálið í síðustu bæjarstjórnarkosningum voru samgöngumál. Það var krafist svara frá framboðunum, hvaða leiðir þau vildu fara. Hver var stefnan? Jú, Sjálfstæðisflokkurinn sem sigraði kosningarnar vildi fyrst og fremst jarðgöng, ef það gengi ekki eftir var Bakkafjara númer tvö og síðasti valkosturinn var nýr Herjólfur. Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra menn kjörna.
Vestmannaeyjalistinn setti sömu röð á forgangsmál bættra samgangna. Um það voru þessi tvö framboð sammála. Vestmannaeyjalistinn fékk þrjá kjörna. Frjálslyndir og óháðir var eina framboðið sem lagði megináherslu á nýtt hraðskreitt skip sem sigla átti til Þorlákshafnar á tveimur klukkustundum. Frjálslyndir og óháðir fengu ekki kjörinn mann í bæjarstjórn Vestmannaeyja.
Auðvitað var kosið um fleiri mál, en samgöngumál hafa verið aðalmálið í Eyjum í allt of mörg ár. Það er grátlegt að enn sé ekki búið að leysa samgöngumál okkar. En þetta var stóra málið sem skyldi Frjálslynda frá hinum flokkunum. Og frjálslyndir töpuðu kosningunum. Fyrir mér er búið að kjósa um Bakkafjöru og daginn sem jarðgöng voru sleginn af var sjálfgefið að líta næst á Bakkafjöru sem kost númer eitt.
Nú get ég ekkert fullyrt að Bakkafjara heppnist fullkomlega og eigi eftir að gjörbylta þessu samfélagi. Ekki frekar en aðrir geti fullyrt að Bakkafjara verði „stórbrotið klúður.” Ég hef engar forsendur eða þekkingu til að fella slíka dóma. Ekki frekar en margir aðrir sem hafa tjáð sig um þetta mál.
Ég legg til að við förum að ráðum Spalarmanna, hlustum ekki á heimsendarspár, heldur treystum þeim sem hafa menntunina, reynsluna og þekkinguna til að klára þetta verk.
Sigursveinn Þórðarson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst