Á síðasta fundi Umhverfis- og framkvæmdasviðs var ákveðið að loka malbikunarstöðinni á næsta ári og verður líklega síðasta malbikið keyrt úr stöðinni í byrjun næsta sumars.
Á fundinum voru lagðar fram tillögur vinnuhóps um framtíðarhorfur malbikunarstöðvarinnar og voru tillögur hópsins þessar:
– Vinnuhópurinn telur ekki forsendur fyrir kaupum á nýrri malbikunarstöð m.v. fyrirliggjandi upplýsingar um stofnkostnað o.fl..
– Vinnuhópur telur ekki skynsamlegt að fara í stórfelldar viðgerðir á vélbúnaði og aðstöðu í núverandi malbikunarstöð. Miðað verði við að unnið verði í stöðinni í nokkra daga haustið 2007 og aftur fyrri hluta næsta sumars og henni verði lokað eftir þá malbikun.
– Fyrir smáviðgerðir og smá-útlagningar verði keypt tilbúið sérstakt malbik frá malbikunarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og það flutt sjóleiðis til Eyja.
– Leitað verði eftir tilboðum vegna framleiðslu á malbiki með færanlegri malbikunarstöð, en tvær slíkar stöðvar eru hér á landi. Leitað verði eftir samstarfi við Vegagerðina um að fara í verulegt átak varðandi malbiksyfirlög á þjóðvegum í Eyjum og Vestmannaeyjabær fari á sama tíma í lagningu yfirlags á nokkrum götum í gatnakerfi bæjarins.
Framkvæmdastjóra Umhverfis- og framkvæmdasviðs falið að taka upp formlegar viðræður við forráðamenn Vegagerðarinnar um samstarf vegna átaks í lagningu malbiks á götum í Eyjum og stefna að því að þessar malbikunarframkvæmdir eigi sér stað eigi síðar en sumarið 2009.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst