Meintur fjárkúgari og lögfræðingur hans með sterk tengsl til Íslands
29. október, 2007

Einn hinna meintu fjárkúgara sem hótuðu að birta kynlífsmyndband af meðlimum bresku konungsfjölskyldunnar er Skoti af íslenskum ættum. Mikil og óvenjuleg tengsl eru við málið til Íslands.

Ian Strachan, eða Paul Aðalsteinsson, er annar tveggja manna sem nú sitja í hinu alræmda Belmarsh fangelsi í Bretlandi. Lögregla tók þá á Hilton hótelinu í Lundúnum og segir að þar hafi þeir reynt að kúga 50.000 pund út úr bresku konungsfjölskyldunni.

Giovanni di Stefano, bresk-ítalskur lögmaður Pauls, segir í samtali við Stöð tvö að hann neiti því alfarið að vera sekur um fjárkúgun. Di Stefano segist hafa myndbandið sem um ræðir og það sýni svo sannarlega ekkert kynlíf. Hins vegar sé á bandinu aðstoðarmaður kunningja sem tengist konungsfjölskyldunni tala um kynlíf tveggja fjölskyldumeðlima.

Di Stefano gefur í skyn að um lágt setta meðlimi konungsfjölskyldunnar sé að ræða. Sjálfur hefur Di Stefano varið menn eins og Slobodan Milosevic, forseta Júgóslavíu sem nú er látinn, og Saddam Hussein forseta Íraks, sem var tekinn af lífi.

Di Stefano segist vera mikill aðdáandi Íslands, enda sé hann með heimili í Vestmannaeyjum og hafi bankareikninga á Íslandi. Skjólstæðingur hans, Paul Aðalsteinsson eða Ian Strachan, sé mikill Íslendingur, bjartur og bláeygur, hafi gaman af að drekka og skemmta sér eins og gjarnt sé um ungt fólk á Íslandi.

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst