Ég er alltaf stoltur þegar ég fæ að heyra mig kallaðan Eyjamann á mínum vinnustað.
31. október, 2007

www.eyjar.net heldur áfram að heyra í brottfluttum eyjamönnum bæði innanlands sem og erlendis með þeim tilgangi að fá að vita hvar þau eru stödd í lífinu og hvaða viðhorft þau hafa til Vestmannaeyja.

Að þessu sinni heyrðum við í Jóni Óskari Þórhallssyni en Jón Óskar er búsettur í Grafarvogi í Reykjavík.

Nafn?
Jón Óskar Þórhallsson (1969) 
     
Fjölskylduhagir?
Ég á einn son, Pálma Jónsson (8 ára) og unnustu Ernu Karen Stefánsdóttur og á hún synina Alexander Huga (12 ára) og Ísak Mána (3 ára).    
     
Atvinna og menntun?
Er viðskiptafræðingur cand.oecon frá Háskóla Íslands og starfa sem fjármálastjóri Opinna kerfa.   
     
Búseta?
Bý í Engjahverfinu í Grafarvogi, Reykjavík.     
     
Mottó?
Njóta lífsins, vera bjartsýnn og sýna æðruleysi í mótbyr.     
     
Ferðu oft til Eyja ?
Ég hef ferðast allnokkuð til Eyja í tengslum við störf mín fyrir ÍBV auk þess sem ég heimsæki fjölskyldumeðlimi og vini.  Sé fram á að geta mætt með son minn á Shellmót næsta sumar, sem er sem draumur að rætast fyrir mig eftir að hafa starfað oft við mótið.  Ætli ég sé ekki bara spenntari en hann sjálfur.   
     
Telurðu það hafa mótað þig sem einstakling að hafa alist upp í eyjum?
Ég held að það móti bæði kosti mína og galla að hafa alist upp í Eyjum og í huganum finnst mér ég ekki vera alveg fluttur eftir rúm 6 ár í borginni.  Ég er alltaf stoltur þegar ég fæ að heyra mig kallaðan Eyjamann á mínum vinnustað.  Mig vantar bara uppstoppaðan lunda á skrifborðið mitt.

Tenging við eyjarnar í dag?
Ég á föður, systur og frændfólk í Eyjum og marga góða vini sem ég hef eignast í gegnum bæði ÍBV og besta Kiwanis-klúbb í heimi.  Auk þess að hitta fjölskylduna eru heimsóknir í Prentsmiðjuna Eyrúnu, Eyjabúð og Týsheimili nánast ómissandi og bíð ég enn eftir að verða boðinn til skoðanabræðra minna á Hjólbarðastofunni.  Ætli maður myndi ekki gera sér ferð.  
     
Fylgistu með því sem er að gerast í eyjum ?
Já það er óhætt að segja, sérstaklega í íþróttalífinu en pólitíkinni er gefið auga líka.  Finnst mér ferskir vindar leika um núverandi bæjarstjórn og fagna ég sérstaklega framgöngu bæjarstjórans, Elliða Vignissonar, sem virðist snöggur að setja sig inn í mál og koma fram með skýra afstöðu fyrir hönd bæjarstjórnar. 
     
Hvernig finnst þér staða Vestmannaeyja í dag?
Staða Vestmannaeyja er mjög slæm meðan samgöngur eru óbreyttar.  Hinsvegar er staðan betri núna en oft áður því mér finnst vera farið að örla á meiri bjartsýni en áður og tel ég hana lykilinn að því að vörn sé snúið í sókn.  Við erum með öflug fyrirtæki í sjávarútvegi og það þarf að tryggja að yfirráð yfir þeim séu klárlega í Eyjum áfram til að tryggja grunn samfélagsins en ég er orðinn langeygur eftir fleiri eldhugum eins og Grími Gísla, en hann framleiðir trúlega bestu fiskrétti heims í neytendaumbúðum um þessar mundir.

Hvar finnst þér sóknarfærin liggja fyrir Vestmannaeyjar ?
Ég tel kvótakaup okkar útgerða vera tvímælalaust sóknarfæri.  Ég vil sjá öflugri ferðaþjónustu og aukna samvinnu ferðaþjónustuaðila, það er gömul saga og ný að það er erfitt að koma á samvinnu í þessum geira í Eyjum.  Það er ekki auðvelt að skipuleggja ferðir til Eyja með hópa.  Það er enginn einn sem hægt er að hringja í og kaupa „pakka”.  Samstarf GV og FV er vísbending um breytta tíma.  Verði bættar samgöngur, tel ég að í Eyjum þurfi að vera öflugt hótel til að geta tekið við stórum hópum á ráðstefnur, árshátíðir o.fl.  Fólk vill gista á sama stað t.d. ef um er að ræða stór fyrirtæki.
Í upplýsingatækni gæti ég séð fyrir mér tækifæri á sviði fjarvinnslu og ég myndi vilja sjá stórhuga menn á því sviði skoða möguleika á uppsetningu netþjónabús, en slík bú eru að ryðja sér til rúms hér á landi. 

Hvernig sérðu næstu 10 ár í þróun eyjanna?
Ég reikna með því að íbúafjöldinn haldist á svipuðum slóðum næstu 10 árin og fjölgi frekar en hitt.  Ég trúi því að ferðaþjónustan eigi eftir að taka verulega vel við sér með bættum samgöngum og er mikilvægt að menn marki sér stefnu hvað varðar framboð á þjónustu.  Verður mögulegt að koma með 200 manns í 4ra stjörnu gistingu í Eyjum á einn stað ?   
     
Sérðu fyrir þér á næstu árum að flytja til eyja?
Ég sé það ekki fyrir mér í náinni framtíð þar sem ég er ánægður í starfinu mínu og líður vel þar sem ég bý.  Ég verð bara að vera duglegur að koma í heimsókn og njóta þess.
     
Gætirðu hugsað þér að stofna og reka fyrirtæki í vestmanneyjum ?
Jú ég gæti vel hugsað mér það jafnvel þó ég búi ekki í Eyjum.  Hef raunar unnið með hugmynd í þá veru í nokkurn tíma.
     
Ef að Eyjamenn þyrftu að fjármagna göngin að hluta til, myndirðu kaupa hlutafé í göngunum ? Hver er arðsemin ?
     
Eitthvað að lokum ? Eyjamenn geta allt sem þeir vilja nógu mikið.  Vinnum Landsbankadeildina, siglum í Bakkafjöru, kaupum kvóta, endurbyggjum Skipalyftuna og rífum ferðaþjónustuna á næsta level.     

 

 

 

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst