Starfsfélagi, yfirmaður, fjölskylduvinur og kórstjóri minn, Guðmundur H. Guðjónsson, sendir mér nokkur skot í grein sinni í síðustu Fréttum. Þar finnst honum ég ósanngjarn í umræðu minni um grein Gísla Jónassonar sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 21. október. Þar segir hann mig telja Gísla hinn mesta ósannindamann þar sem hann noti ekki sömu reikniformúlu og ég þegar hann reiknar út ferðatíma milli, Bakka og Reykjavíkur annars vegar og Þorlákshafnar og Reykjavíkur hins vegar. Þá minnist Gísli einnig á það í sínu svari sem hann setti inn á netmiðla skömmu eftir að athugasemdir mínar birtust, að honum finnist ferðatíminn skipta litlu máli í þessari umræðu, þétta étur yfirmaður minn upp eftir honum einnig í sinni grein og gerir lítið úr útreikningum mínum á umræddum ferðatíma.
Guðmundur segir að ég geti ekki ekið á 90 km hraða frá Bakka til Reykjavíkur þar sem vegurinn liggi í gegn um þrjú þorp. Til upprifjunar bendi ég á að ég notaði eingöngu þær forsendur sem Gísli gaf sér í sinni grein. Þar talar hann um hálftíma til Þorlákshafnar en tvo tíma á Bakka. Þar sem vegalengd milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur er 51 km þá fann ég út meðalhraðann 102 km/klst sem ég setti reyndar spurningarmerki við í greininni og taldi vera heldur hratt, en til að hægt væri að bera saman leiðirnar notaði ég þær upplýsingar frá Gísla og fann þannig út ferðatímann milli Bakka og Reykjavíkur. Guðmundur gerir reyndar lítið úr umræðunni um ferðatímann í umræðunni en finnst samt miklu máli skipta að ég geri ekki ráð fyrir að þurfa að hægja ferðina á leið minni gegn um þau þrjú þorp sem á leiðinni eru.
Sé upphafleg grein Gísla skoðuð þá sést að hún fjallar að mestu um ferðatímann milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Persónulega finnst mér mínútur ekki skipta máli í þessu tilviki, en í þessari grein voru þær notaðar til að rökstyðja að betri möguleiki væri nýr Herjólfur í Þorlákshöfn heldur en ferjulægi í Bakkafjöru. Þegar svo þessi rök eru hrakin þá er ferðatíminn orðinn algert aukaatriði og Gísli segist í svari sínu við grein minni að hann skilji ekki umræðu um þessa styttingu á ferðatíma, sem hann hóf þó sjálfur þegar rökin voru hans megin. Hitt er svo annað mál eins og ég bendi á í minni grein að aukin ferðatíðni milli lands og Eyja er það sem mun valda byltingu í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Ekki hvort við erum 2 tíma og korter eða 2 tíma og þrjú korter með Herjólfi.
Þá fer Guðmundur ansi frjálslega með staðreyndir þegar hann lætur í það skína að þetta hafi verið eina staðreyndavillan sem ég hafði eitthvað við að athuga í máli Gísla. Gísli minntist á að rútufargjaldið verði á 4. þús krónur á þessari leið sem ég benti einnig á með rökum að fengi ekki staðist og mun að öllum líkindum vera nær 2500 krónum. Þá minntist ég líka á þann rógburð að vestmanneyskir sumarhúsaeigendur í Rangárþingi væri sá hópur sem sækti það fastast að fá höfn í Bakkafjöru. Það voru þessi atriði sem ég vildi benda á og að ekki væri rétt farið með staðreyndir. Hvort þetta eru léttvæg mál eður ei finnst mér ekki miklu máli skipta en þau voru notuð sem rök með nýjum Herjólfi og gegn Bakkafjöru, og hafa verið hrakin.
Garður sá í Grímsey, sem hræðsluáróðursmenn gegn Bakkafjöru vitna oft til, eins og Guðmundur gerir í grein sinni, var byggður um árið 1966. Hann hvarf fljótlega eins og Guðmundur bendir á. Má ætla að framfarir hafi orðið í þessum málum síðan þetta var og hefur bygging þessa garðs líklega gefið mönnum miklar upplýsingar um gerð hafnargarða og mannvirkja. Við getum örugglega dregið fram fleiri verkfræðileg slys sem orðið hafa í gegn um tíðina og þá þess vegna farið enn aftar í tímann til að leita heimilda. En Guðmundur sér ekki ástæðu til að minnast á garðinn sem byggður var 1990 í Grímsey og stendur enn.
Ég geri ekki lítið úr áhyggjum manna vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Það er eðlilegt að menn hafi áhyggjur þegar um jafn mikilvægt mál og samgöngur okkar byggðarlags er að ræða. En noti menn vísvitandi röng rök máli sínu til stuðnings þá finnst mér ástæða til að stinga niður penna og benda á þær rangfærslur.
Guðmundur vill láta líta svo út að ég mæni opinmynntur upp í geðið á verkfræðingum og lepji upp hugsunarlaust það sem þeir hafa fram að færa og segir jafnframt að það ergi mig að aðrir geri ekki slíkt hið sama. Ég stend við það sem ég segi að ég treysti þessum mönnum fullkomlega til að gera þær rannsóknir sem þeir telja að gera þurfi. Heimamenn og aðrir hafa verið duglegir að benda á það sem veldur þeim áhyggjum, eins og t.d. Gísli í sinni grein með sandburðinn. Ég sat fyrir um tveim árum, ásamt Gísla Jónassyni, fund með nafna hans Viggóssyni þar sem hann útskýrði sandburð við væntanlega höfn í Bakkafjöru. Ég hef enga ástæðu til að ætla að Gísli Viggósson hafi þar verið að fara með fleipur og gat ég ekki betur séð en hann vissi nú ýmislegt um sandburð og strauma á þessu svæði, þó hann sé nú ekki fæddur þarna og upp alinn. Á þessum fundi minntist Gísli Jónasson á GPS mælingar þannig að sú ábending er löngu komin til skila. Verkfræðingar hafa ekki séð ástæðu til að fara út í þessar mælingar og tel ég að þeir hljóti að hafa eitthvað fyrir sér í því.
Hvað varðar rannsóknir á jarðgöngum og meint áhuga og aðgerðarleysi þingmanna okkar í þeim málum þá get ég alveg tekið undir vonbrigði Guðmundar um þau mál og finnst grátlegt að þessi besti kostur sem ég tel í samgöngumálum okkar Eyjamanna hafi ekki getað orðið að veruleika núna. Þó minnist ég ekki þess að þingmenn okkar hafi lofað að klára þessar rannsóknir, mig minnir þeir hafi lofað að láta óháðan aðila rannsaka þau gögn sem fyrir lægju og taka út frá því ákvörðun um hvort jarðgöng væru hagkvæmur kostur eður ei. Þessar athuganir voru kláraðar og niðurstaðan sú að jarðgöng væru of dýr og auknar rannsóknir myndu engu breyta þar um. Við getum svo endalaust velt okkur upp úr því hvort þarna hafi verið logið eða sagt satt. Menn eru duglegir við að setja fram alls kyns samsæriskenningar um þessi mál og telja sumir að ákvarðanir séu teknar í reykfylltum bakherbergjum þar sem skipst sé á pólitísku skotsilfri með hagsmuni almennings sem gjaldmiðil. Ég leyfi mér að efast um að þess lags staðhæfingar eigi rétt á sér og tel ég í raun það ekki þjóna umræðunni sem slíkri að smíða slíkar samsæriskenningar.
Annars hafði ég nú ekki hugsað mér að fara að munnhöggvast við yfirmann minn hér á opinberum vettvangi, enda spurning um hversu gáfulegt það er en fann mig samt knúinn til að svara þessari grein þar sem mér finnst ansi mikið á mig hallað í henni.
Jarl Sigurgeirsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst