Reynsla okkar hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra er sú að úti í þjóðfélaginu sé stærsti hluti foreldra fylgjandi því að halda vel utan um börnin sín, veiti þeim hlýju og sýni þeim virðingu. Ef foreldrar hittast og tala saman eru meiri líkur á því að þeir standi saman um mikilvæg uppeldisleg atriði. Þannig styrkjumst við sem foreldrar. Einnig aukast við það líkur á minnkuðu umburðarlyndi foreldra gagnvart neikvæðum lífsstíl barna. Við teljum að ein árangursríkasta leiðin sem við höfum til að vekja vitund foreldra sé að fá þá til að hittast og ræða málin yfir verkefni sem krefst virkrar þátttöku þeirra.
Foreldrasáttmálinn er einmitt eitt slíkra verkefna og leggur grunn að umræðum á milli foreldra um þau atriði er skipta máli fyrir farsælt uppeldi. Verkefnið er í eðli sínu forvarnarverkefni gegn hvers konar neikvæðum lífsstíl hjá börnum og unglingum. Þar sem verkefnið hefur verið vel kynnt og góð samstaða foreldra hefur náðst um ákveðna þætti í uppeldinu, er það samdóma álit allra sem að koma, að sáttmálinn skili góðum árangri. Þeir sem eru í uppreisn við ríkjandi gildi í þjóðfélaginu láta oft mest til sín heyra og er samkomulag foreldra kjörið mótvægi við slíkar raddir.sjá nánar www.heimiliogskoli.is
Rannsóknir sýna að því yngri sem börn hefja neyslu áfengis og annarra vímuefna þeim mun hættara er við að það valdi þeim erfiðleikum og hafi neikvæð áhrif á líf þeirra og allrar fjölskyldunnar. Við hvert ár sem byrjunaraldurinn hækkar minnka líkur á misnotkun um 14 %. Foreldrar þurfa að vita hvað er í húfi svo þeir geti rætt við börnin sín og brugðist rétt við. Félagsgerð grenndarsamfélagsins sem barnið elst upp í og jafningjahópurinn getur líka haft mikil áhrif.
Heimili og skóli – landssamtök foreldra hafa þróað foreldrasamninginn sem forvarnarverkefni fyrir foreldra. Foreldrasamningurinn hefur verið endurútgefinn og heitir nú foreldrasáttmáli. Sáttmálinn höfðar til samábyrgðar foreldra um t.d. einelti og reglur um notkun á tækni eins og tölvuleikjum, internetinu og farsímum.
Við teljum að efla þurfi hlutverk foreldra í forvörnum og viljum sjá auknum fjármunum veitt til fræðslu til foreldra þannig að þeir geti síðan frætt sín börn og verið þeim góð fyrirmynd. Bestu leiðina til að ná til forelda teljum við fundi þar sem foreldrar barna á svipuðum aldri hittast og ræða málin. Jafnframt teljum við að auka þurfi vitund foreldra um mikilvægi foreldrasamstarfs og ávinninginn af því bæði í skólum og utan þeirra.
Helga Margrét Guðmundsdóttir
helgamg@heimiliogskoli.is
Verkefnastjóri hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst