Á dauða mínum átti ég frekar von en að ég yrði áhugamaður um hönnun á skipum og ferjum. Svo er nú hinsvegar komið að ég hef orðið nokkuð gaman af þessum skipa pælingum. Auðvitað er ég eins langt frá því og hægt er að vera sérfræðingur á því sviði, reyndar þekki ég lítið til annars en að vera sjóveikur farþegi. Hinsvegar er ég svo lánsamur að hafa gott aðgegni að þeim sem hafa sérfræðiþekkinguna, bæði í mínum vinahópi, fjölskyldu og innan Siglingastofnunar.
Eitt af því sem hvað mest hefur verið rætt við hönnun á nýjum Herjólfi sem sigla á í Land-Eyjahöfn er að það fari sem allra best með farþega. Sigling er margra mati ekki þægilegur ferðamáti og það háir okkur Eyjamönnum þegar gestir okkar (eða við sjálf) verðum sjóveik. Sjóveiki er “náttúruleg viðbrögð heilbrigðs líkama við óeðlilegum aðstæðum”. Þótt ýmis húsráð séu góðra gjalda verð svo sem að binda trefil fast um magann á sér, taka inn Pektólín, vera með segularmband og fleira þá stendur þetta og fellur með því að draga úr þessum óeðlilegu aðstæðum (veltunni og stampinu).
Í þeim tilgangi að bæta líðan farþega og auka öryggi sjófarenda hafa Norðmenn farið þá leið að hanna nýtt stefni á skip sem sigla við erfiðar aðstæður, svo kallað X-BOW stefni.
Hönnun þessi hefur fært viðkomandi hönnuði (Øyvind Karnsvag) og fyrirtækinu (Ulstein) fjölmargar viðurkenningar og er þess skemmst að minnast þegar skipið (The Bourbon Orca) var tilnefnt skip ársins. Ekki einungis þykir það fara langtum betur með áhöfn, farm og farþega heldur brennir það minni olíu og nær meiri hraða en skip með hefðbundið stefni.
Reyndar er hér ekki verið að finna upp hjólið því hugmynd þessi er dregin af stefni á Kvalsund knerrinu sem fannst í uppgreftri í Sunnmörre í Noregi. Merkilegt hvað víkingarnir hafa snemma verið komnir með lag á því að hanna skip til siglinga á erfiðum leiðum en talið er að skipið hafi verið smíðað um árið 900.
Myndbandið sem er “linkað” hér fyrir neðan sýnir þegar slíkt skip siglir fram úr sambærilegu skipi með hefðbundið stefni. Athyglisvert er að grænaskipið með X-BOW stefnið er að sigla á 13 mílna hraða en það rauða er að sigla á 8 mílna hraða. Mér sem leikmanni sýnist ekki fara á milli mála hvað X-BOW skipið fer betur í ölduna, jafnvel þótt það sé á svona mikið meiri hraða (það er í raun að sigla framúr). Gaman væri að vita hvað þeim sem þekkja til þykir um þetta.
Sjá: Ulstein X-bow
ps. Vegna reynslu af umfjöllun um nýjan Herjólf sem sigla á í Land-Eyjahöfn er rétt að taka skýrt fram að þetta skip sem hér er sýnt er ekki væntanleg ferja.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst