Nýtt samkomulag um norsk-íslensku síldina
15. nóvember, 2007

Gengið hefur verið frá nýju samkomulagi um norsk-íslensku síldina fyrir árið 2008 á fundi strandríkjanna sem nú fer fram í London. Að sögn Landssambands íslenskra útvegsmanna verður heildarkvótinn 1.518.000 tonn, en í hlut Íslands munu koma 220.262 tonn.

Niðurstaðan um heildarafla byggir á stofnmati Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og langtíma nýtingarstefnu sem strandríkin gerðu samkomulag um árið 1999. Fiskveiðiráðgjafarnefnd ICES skilaði ráðgjöf í október og samkvæmt þeirri ráðgjöf var 1.266.000 tonna heildarafli í samræmi við nýtingarstefnuna. Strandríkin funduðu síðar í mánuðinum og skiptu með sér þessum ráðlagða afla. Síðar kom í ljós að útreikningarnir sem ráðgjöfin byggði á voru rangir. Útreikningarnir hafa nú verið leiðréttir og byggir nýja samkomulagið á leiðréttu niðurstöðunni.

Fram kemur á heimasíðu LÍÚ, að norsk-íslenski síldarstofninn sé í góðu ástandi og áætlað, að stærð hrygningarstofns sé um 12 milljónir tonna. Rannsóknir á stofninum bendi til þess að nýliðun sé góð og ekki sé annað að sjá en að stofninn haldist sterkur næstu ár.

Þegar mest var veitt úr þessum stofni á 6. og 7. áratug síðustu aldar var heildaraflinn oft á bilinu 1-1½ milljón tonna en fór hæst í rétt tæplega 2 milljónir tonna. árið 1966.

 

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst