MARGRÉT Lára Viðarsdóttir markadrottning í liði Íslandsmeistara Vals er með mörg járn í eldinum þessa dagana en félög í Svíþjóð, Þýskalandi og Bandaríkjunum hafa borið víurnar í hana. Margrét var á dögunum til skoðunar hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Djurgården sem og Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður Vals, en liðið varð í öðru sæti deildarinnar sem lauk á dögunum. Margrét er spenntust fyrir því að fara til Bandaríkjanna eða Svíþjóðar en í samtali við Morgunblaðið í gær reiknaði hún með því að skoða aðstæður hjá félagi í Bandaríkjunum sem hún vildi ekki nafngreina að svo stöddu. Fer ef ég finn betra lið en Val
,,Mér leist ágætlega á Djurgården en það eru fleiri lið sem hafa haft samband og boðið mér að skoða aðstæður hjá sér. Ég ætla að taka mér góðan tíma til þess og ef ég finn eitthvert betra lið en Val til að fara til þá er ég til í það. Allar aðstæður og grundvöllur til knattspyrnuiðkunar hjá Val eru frábær og ég vil ekki fórna því fyrir að fara til liðs í útlöndum í svipuðum gæðaflokki eða þá verri,” sagði Margrét Lára við Morgunblaðið í gær.
,,Mér finnst gott að geta skoðað mig um hjá nokkrum liðum áður en ég tek ákvörðun um hvað ég geri. Kvennafótboltinn er lítill markaður þannig að maður þarf að gefa sér góðan tíma til að velja úr og ég reikna ekki með að taka ákvörðun um hvað ég geri fyrr en í janúar,” sagði Margrét Lára, sem fór á kostum í sumar en hún bætti markamet sitt með því að skora 38 mörk í Landsbankadeildinni í 16 leikjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst