Hermann Hreiðarsson, fyrirliði Íslands, var ekki sáttur með úrslit leiksins en var þó sáttur með ýmislegt í gær. „Það er glatað að tapa 3-0 en það var ótrúlega margt jákvætt í þessu hjá okkur,” sagði Hermann Hreiðarsson, fyrirliði íslenska liðsins, sem var ánægður með vinnsluna á liðinu í leiknum.
„Menn vissu hvað þeir áttu að gera og okkur leið ágætlega inni á vellinum þegar þeir voru með boltann,” segir Hermann sem fannst að liðið hefði átt að geta komið í veg fyrir fyrstu tvö mörkin.
„Í fyrsta markinu dettur boltinn inn fyrir og í öðru markinu þá átti ég bara að sópa hann niður á miðjunni og taka hann úr umferð því þá hefði ekkert gerst,” sagði Hermann sem lét þá Nicklas Bendtner teyma sig út úr sinni stöðu.
„Það var hörku barátta í liðinu og mönnum leið ágætlega með boltann sem var mikil framför frá því í síðustu leikjum. Við verðum að fara að halda hreinu og fara að fá á okkur færri mörk. Þar þurfum við að byrja,” sagði Hermann sem er hrifinn af danska liðinu.
„Þeir spila ótrúlegan skemmtilegan fótbolta og klúðruðu því bara að komast á EM. Þetta er stórskemmtilegt knattspyrnulið og við náðum að verjast þeim ágætlega en þeir nýttu bara sín færi,” sagði Hermann rétt áður en hann rauk upp í rútu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst