Af umburðarlyndi okkar Eyjamanna
3. desember, 2007

Ef lýsa ætti Eyjamönnum í dag yrði lýsingin eitthvað á þessa leið: Með eindæmum skapgott fólk og seinþreytt til vandræða. Þá sjaldan sem það fýkur í Eyjamenn, rennur þeim fljótt reiðin og allt dettur í sama farið.

Í fyrramálið siglir Herjólfur til Þorlákshafnar eftir sinni áætlun en engin ferð er til baka. Skipið siglir til Hafnarfjarðar og fer þar upp í slipp. Það þarf að gera við aðra aðalskrúfuna. Á föstudaginn bilaði hliðarskrúfan. Ég var um borð í þeirri ferð. Fimm klukkustunda ferð, reyndar í fínu sjóveðri. En hvað segir þetta okkur?

Skipið er komið á tíma og er hætt að uppfylla kröfur okkar.

Herjólfur á að koma aftur til siglinga á föstudaginn. Reyndar vita menn að það þarf lítið út af að bregða til þess að sú áætlun standist ekki. Og hvað gerist á meðan?

Ekkert.

Það er ekki gert ráð fyrir að neitt skip komi í staðinn. Eyjamenn verða að treysta á flug fyrir ferðir hér á milli og til að fá nauðsynjarvörur. Í desember…

Hvað er í gangi? 

Við höfum sjaldan haft eins góðan aðgang að ríkisvaldinu og nú, alla vega ættum við að hafa góðan aðgang. Tveir stjórnarþingmenn eru frá Vestmannaeyjum og varaþingmaður Samfylkingarinnar er aðstoðarmaður samgönguráðherra. 

Ekki eitt orð frá þessum mönnum. Hvers vegna?

Það á að vera skýlaus krafa frá okkur að nýtt skip komi strax til siglinga í Þorlákshöfn á meðan beðið er eftir að Bakkafjara verði tilbúinn. Núverandi skip er bæði of lítið og orðið gamalt.

Sjö bæjarfulltrúar í Eyjum, fjórir Sjálfstæðismenn og þrír Samfylkingarmenn. Ríkisstjórnin samanstendur af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni.  Ef við náum ekki árangri núna þá er eitthvað mikið að.

Búið er að taka ákvörðun um Bakkafjöru. Sama hvað menn segja um þá framkvæmd. En það á enn eftir að leysa samgöngur í dag. Þær eru í ólestri.

Það þýðir ekki að fjölmenna niður á bryggju og flauta. Við þurfum að gera eitthvað róttækt til að ná athygli stjórnarmanna. Ekki virðast „samböndin” duga.

Frakkar hafa alltaf verið róttækir í sínum aðgerðum þegar þeir vilja ná athygli og framförum.

Þurfum við ekki að líta þangað eftir fyrirmyndum?

Sigursveinn bloggar á www.svenko.blog.is

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst