Fiskafli, á föstu verði, hefur dregist saman um 4,4 prósent það sem af er ári, miðað við sama tíma í fyrra. Fiskaflinn í nóvember jókst hins vegar um 1,7 prósent í síðasta mánuði, miðað við nóvember í fyrra, á föstu verði, að því er fram kemur í tölum Hagstofunnar.
Þegar magn upp úr sjó er kannað, dróst þorskaflinn saman um rúmlega 3.700 tonn í nóvember miðað við sama tíma í fyrra og karfaaflinn um tæp 430 tonn. Hins vegar jókst ýsuafli um rúmlega 4.000 tonn og ufsaafli um 420 tonn.
330 tonnum meira veiddist af uppsjávarfiski en á sama tíma í fyrra. Nú var eingöngu veidd síld, alls tæp 68.900 tonn.
Hagstofan segir að afli á föstu verði sé reiknaður út til þess að finna breytingu á verðmæti heildaraflans að gefinni þeirri forsendu að verðhlutföll milli einstakra fisktegunda séu þau sömu og á ákveðnu viðmiðunarári sem sé árið 2004.
Aflaverðmæti íslenskra skipa fyrstu níu mánuði ársins nam 62,3 milljörðum króna og jókst um fjóra milljarða miðað við sama tíma í fyrra. Aflaverðmætið í september var 4,3 milljarðar og dróst það saman um 1,6 milljarða frá sama mánuði í fyrra
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst