Á morgun föstudag hættir Gunnar Jónsson störfum hjá Vestmannaeyjabæ en Gunnar hefur starfað hjá Vestmannaeyjabæ frá árinu 1972. Af því tilefni bauð Vestmannaeyjabær til kaffisamsætis í gær þar sem Gunnari voru færðar gjafir og þakkir frá sveitarfélaginu og samstarfsfólki.
Vestmannaeyjabær færði Gunnari þakklætisvott fyrir störf sín og afhenti Elliði Vignisson bæjarstjóri Gunnari málverk eftir Guðjón Ólafsson í Gíslholti að gjöf.
Mikla lukku vakti ljóðakorn sem starfsmenn sömdu til heiðurs Gunnari. Það hljóðar svo:
Gunnar Stefán Jónsson.
Sumir völdin vildu fá.
Aðrir strax þeir fóru frá.
Gunnar kyrr á sínum stað,
sagði aldrei orð um það.
Lengi sat í sínum stól,
skilið á hann lof og hól.
Hug og hjörtu allra vann,
hugljúfi, já það er hann.
Gunnar Jónsson fer nú frá,
fráhvarfsverki munum fá.
Skilur eftir auðan blett,
eins og vanti Heimaklett.
.
Kveðja frá samstarfsfólki.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst