Þrír ættliðir sigldu skipinu til hafnar
22. desember, 2007

Dala-Rafn VE 508 kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum í fyrsta skipti í gær. Skipið er smíðað í Póllandi og er fimmta skip útgerðar í eigu hjónanna Þórðar Rafns Sigurðssonar og Ingu Eymundsdóttur.

Þórður Rafn er skipstjóri á Dala-Rafni, en auk hans sigldu skipinu frá Póllandi sonur hans Eyþór og sonarsonur Ingi Rafn. Þrír ættliðir voru því við stjórnvöl skipsins á heimleiðinni. Þeir lögðu af stað á laugardaginn og fengu gott veður á leiðinni.

Það er ávallt hátíðarbragur yfir því þegar nýtt skip kemur til heimahafnar í fyrsta skipti, og það átti sannarlega við í gær. Eftir að prestar Landakirkju höfðu blessað skipið og áhöfn þess, var bæjarbúum boðið að skoða hið glæsilega fley.

Þórður skipstjóri tilkynnti við það tilefni að eftir fimmtíu ára sjómennsku væri nóg komið og hann hefði ákveðið að fela syni sínum Eyþóri skipsstjórnina.

Dala-Rafn er sjötta skipið sem bætist við flota Vestmannaeyinga á árinu.

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst