Sumaráætlun Herjólfs hefur gengið vel og gríðarlegur fjöldi farþega farið með skipinu á milli lands og Eyja. Eðlilega hefur verið uppselt í skipið í mörgum ferðum og kallað hefur verið eftir fleiri ferðum til að mæta auknum kröfum.
En kerfið er þungt og skipið ekki rekið á forsendum heimamanna sem þurfa að fara sem sendinefnd til Reykjavíkur og biðja um aukaferðir til að mæta þjónustunni. Afleytt fyrirkomulag og verður aldrei boðlegt fyrr en Eyjamenn taka rekstur Herjólfs í eigin hendur og þjónustan taki mið af þörfum íbúa og atvinnulífs í Eyjum.
Í úttekt minni um afkomu á rekstri Herjólfs sem unnin var með sérfræðingum á nefndarsviði Alþingis, aðilum í Eyjum sem þekkja vel til rekstur skipsins og gömlum upplýsingum sem fengust frá Vegagerðinni kom í ljós að reksturinn skilar að minnsta kosti 300 m.kr. á ári til Eimskips.
Eimskip svaraði ekki óskum um upplýsingar um rekstur ferjunnar, sögðu þær vera viðskiptaleyndarmál. Því er haldið fram við mig að reksturinn skili mun hærri upphæð en fram kemur í meðfylgjandi gögnum. Ég hef sent upplýsingarnar á Eimskip, Vegagerðina og innanríkisráðherra og engin hefur gert athugasemdir við úttektina eða dregið hana í efa.
Eimskip á að hafa arð af starfsemi Herjólfs og eðlilegast væri að semja um þá upphæð í samningi á milli rekstaraðilans og Vegagerðarinnar. Arður umfram það ætti því að fara til lækkunar á gjaldskrá Herjólfs og þannig að koma Eyjamönnum beint til góða. Þannig væri mögulegt að taka 90 m.kr. til að greiða niður fargjöld á leiðinni til Þorlákshafnar og hafa sama fargjald hvort siglt er í Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn. Sanngjörn og eðlileg krafa þegar rekstur skipsins skilar hundruð milljónum í hagnað.
Það fór ekki framhjá landsmönnum umræðan um einkaframkvæmdir í vegakerfinu sem taldar eru nauðsynlegar til að flýta fyrir umbótum á vegum landsins. Þá komu fram þingmenn sem töldu það algjöra óhæfu að taka ætti upp greiðslu veggjalda sem kæmu niður á íbúum landsbyggðarinnar. Ég virði þá skoðun, en hvað er fargjald með Herjólfi annað en veggjald sem íbúar í Vestmannaeyjum bera og þegar siglt er til Landeyjahafnar er veggjaldið 1.320 kr. en 3.420 kr. þegar siglt er til Þorlákshafnar. Annar kostnaður eins og fyrir bíl og kojur hækkar í stíl við veggjaldið. Ef hjón bregða sér með bíl í Landeyjahöfn er kostnaðurinn tæpar 7.000 kr. en 21.000 kr. til Þorlákshafnar með 2ja manna klefa.
Ég hef bent á að það er svigrúm í rekstri Herjólfs til að mæta sanngjarnri kröfu Eyjamanna um sömu verðskrá í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn eins og sjá má á meðfylgjandi yfirliti um rekstur Herjólfs.
Þetta mál þarf algjöran forgang og þarf að komast til framkvæmdar næsta vetur. Fái ég brautargengi í næstu kosningum mun ég leggja allt kapp á að leiðrétta þetta mikla sanngirnismál. Því get ég lofað.
Ég óska eftir stuðningi Eyjamanna til forystu á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi þann 10. september til að vinna að þessu mikilvæga máli eins og mörgum öðrum málum.
Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst