Satúrnus er 30 ár að fara hring í kringum sólina. Lífið er því u.þ.b. þrír Satúrnusarhringir, ef Guð lofar.
Fyrsti Satúrnusarhringurinn er undirbúningur fyrir næsta, annar fyrir þann þriðja og vonandi sá þriðji til að auðvelda börnunum okkar sína hringi þegar þau hjálpa sínum börnum með sinn fyrsta hring.
Ég var 11 ára þegar ég byrjaði að bera út blöð. Eftir það átti ég alltaf pening og þurfti ekki vasapening. Síðan tóku við ýmis störf, bæði á grunn- og framhaldsskólaárum, og starfaði ég hjá hinum og þessum ásamt því að starfa sjálfstætt í slætti sem gaf afar vel. Það mætti segja að ég hafi rakað inn.
Þegar ég var rétt að verða tvítugur flutti ég til Reykjavíkur til að hefja nám í háskóla. Ég fór að vinna með námi og hef alltaf unnið og haft nóg á minni könnu. Þannig fúnkera ég best. Ég hef lifað gleðiríku lífi og margir af mínum draumum hafa ræst. Fyrsta Satúrnusarhringnum mínum er lokið.
Oft er talað um að einhver hafi hitt eða þetta veganesti út í lífið. Veganestið getur verið alls konar; veraldlegir hlutir, reynsla, erfðir og margt fleira. Eitt af því sem gott er að hafa sem veganesti út í lífið er fjárhagslegt öryggi. Það hafði ég en hefði getað gert mikið meira úr því. Ég rakaði inn, muniði.
Dæmigert ungmenni eyðir ógeðslega miklum peningum í kjaftæði af því að sjálfsmyndin er í mótun og ungmenni keppist við að elta stefnu og strauma. Þetta mætti segja að sé eðlilegt. Þetta hefur verið svona lengi og verður svona lengi í viðbót – alltaf. En hvað eru þá raunhæfar væntingar til ungmennis? Er raunhæft að það fari ekki með vinum sínum í bakaríið heldur spari? Er raunhæft að það leggi 100.000 kr inn á bók og noti frekar gamla símann hennar mömmu en að kaupa sér nýjan? Er raunhæft að fá frekar notaða úlpu frá frænku sinni en að kaupa nýja merkjaúlpu? Er raunhæft að ungmennið fái 30% af þeim vasapening sem það fær í dag og afgangurinn fari inn á bók? Er raunhæft að ungmennið smyrji nesti og leggi inn á bók andvirði búðarferðar í frímínútum? Er raunhæft að FIFA strákur fái sér nýjan FIFA aðeins annaðhvert ár? Er raunhæft að fá sér ekki rafskutlu?
Foreldrar mínir, sérstaklega mamma, reyndu mjög reglulega að tala við mig um þessa hluti þegar ég var ungmenni. Af hverju leggurðu ekki helminginn inn á stóru bókina? Af hverju ert þú að styrkja bakaríið? Jújú, þetta eru alveg flottar buxur en áttu ekki aðrar sem eru eiginlega eins? Það sem var klárlega það versta sem ég eyddi peningunum mínum í voru svo þessar blessuðu hettustrípur!
En hvað þýðir peningurinn þegar fram líða stundir? Af hverju ætti ekki að eyða honum eins og unglingar gera og hafa bara gaman? Hvað kostar að hafa gaman? Standast kröfur? Hvaða kröfur? Ég veit það ekki. En ég veit að mínar kröfur hefðu klárlega geta staðist fyrir miklu miklu minni pening. Ég gæti skotið á að hárgreiðsla mín árið 2004 (19 ára) hafi kostað um 120.000 kr yfir árið. Hefði sá 120.000 kall farið inn á bók væri ég e.t.v ekki að safna fyrir nýrri eldhúsinnréttingu. Hún væri komin. Ef bakarísferðirnar hefðu verið helmingi færri (ég hefði ekki viljað vera án þeirra) ætti ég kannski Martin kassagítarinn sem mig hefur alltaf langað í. Ef ég hefði ekki keyrt í svona marga hringi og eytt í það bensíni væri ég e.t.v. búinn að fara til fleiri landa. Ef ég hefði lagt til hliðar helminginn af því sem ég eyddi frá 11-20 ára aldurs hefði ég getað keypt mér íbúð þegar ég fór í nám í Reykjavík. Það var nú ekki lág upphæð sem ég eyddi í leigu í þau 13 ár sem ég bjó í borginni og er það annar kapituli um illa nýtt fé.
Af hverju er ungmenni í dag að vinna í búð eða sjoppu, bæjarvinnunni, barnapössun eða jafnvel að bera út blöð? Er það til að leggja fyrir og gera Satúrnusarhring tvö skemmtilegri eða er það til að gera eitthvað sem síðan skiptir akkúrat engu máli?
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst