Það gladdi hjarta mitt að bæjarstjórn var einhuga um það á síðasta fundi að skora á samgönguráðherra og þingmenn kjördæmisins að kostir gangna milli lands og eyja yrðu kannaðir.
Jarðgöng milli lands og eyja yrðu ekki bara hin endanlega lausn við samgönguvanda Vestmannaeyinga. Lagnir á borð við vatn og rafmagn eru stórmál því þær þarf að leggja þær undir sjó með tilheyrandi kostnaði. Jarðgöng bjóða nágrönnum okkar á Suðurlandi nálægð við góðan framhaldsskóla og heilsugæslu sem einu sinni var í topp klassa svo ekki sé talað um nýju augnstofuna sem framsýnir Lionsmenn börðust fyrir og opnar á næstunni og mun í framtíðinni auðvitað þjóna augum allra sunnlendinga, öllum til heilla. Þegar svo stórskipahöfnin norðan Eiðis verður vígð verða fyrirtæki á Suðurlandi komin með hafnaraðstöðu.
Fiskeldi í nágrenni Hvolsvallar með tilheyrandi atvinnusköpun verður raunverulegur möguleiki. Þegar U2 halda stórtónleika sína á sviðinu í Herjólfsdal munu samgöngur ekki stoppa tónleikana. Hugsanlega vill Bono fljúga en hvað með það. Nýtt sveitarfélag norðan eyja mun blómstra og fólkinu fjölga.
Þetta er ein af mörgum ástæðum þess að Vestmannaeyingar og sveitarfélögin Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur sem á næsta ári munu væntanlega heita sveitarfélagið Suðurland eiga að leggjast á árar með Vestmannaeyingum og krefjast þess að hafist verði handa um göng nú þegar.
Góðir Vestmannaeyingar, gerum eins og Akureyringar gerðu forðum daga þegar korter var í kosningar, fáum þingmenn kjördæmisins til að gefa út yfirlýsingar um hvort þeir séu fylgjandi málefninu eða ekki, svo getum við rölt í kjörklefana í september með svör þeirra í farteskinu.
Hamingjan er og verður hjá okkur í framtíðinni.
Alfreð Alfreðsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst