Í byrjun desember hófst áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Vegagerðin, fyrir hönd ríkisins samdi við Mýflug um flugið, en samkvæmt samningnum greiðir Vegagerðin Mýflugi 691.062 kr. fyrir hvert flug (RVK-VES-RVK). Um er að ræða flug á tímabilinu 1. desember til 28. febrúar og einungis greitt fyrir það tímabil og greiðir Vegagerðin því 35.935.224,- á ári til flugfélagsins.
Í svörum til Eyjafrétta frá Vegagerðinni um hvort flugfélagið fái greiddan styrk fyrir ferð sem ekki er farin sökum ófærðar, segir að samkvæmt samningi rekstraraðila við Vegagerðina fær rekstraraðili greitt 50% af einingarverði þeirrar ferðar sem fellur niður ef ferð er ekki farin vegna ófærðar.
Þegar ekki er hægt að fljúga sökum ófærðar – hvers vegna er ekki farið síðar um daginn eða daginn eftir, sé orðið fært?
Ef aflýsa þarf flugferð skv. áætlun vegna veðurs, eru ákvæði í samningnum um að rekstraraðili fari ferðina við fyrsta mögulega tækifæri, svo framarlega sem fyrirsjáanlegt er að ferðinni verði lokið áður en næsta ferð skv. áætlun á að hefjast.
Flugáætlunin hefur verið lítið markaðssett er því er spurt hvort engar kröfur séu um að markaðssetja slíka þjónustu sem er ríkisstyrkt. Í svari Vegagerðarinnar segir að í samningnum séu ekki gerðar kröfur um markaðssetningu á ríkisstyrktu flugi. Rekstraraðila er þó heimilt að markaðssetja flugið.
Áður hafði komið fram í svari Vegagerðarinnar að Mýflug sé að nota B200 Kingair flugvélar í verkefnið sem stendur en það er flugrekandans að ákveða hvaða vélartegund hann notar í verkefnið svo fremi sem þær uppfylla kröfur útboðsins. B200 Kingair flugvélar taka 7-9 farþega eftir útfærslu vélarinnar hverju sinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst