Anna Lilja segir af fósturföður sínum – Jóhanni Friðrikssyni – Einstakur liðsandi á Breka – Valinn maður í hverju rúmi – Góður þjálfari
Jóhann Friðriksson fósturfaðir minn, kallaður Jói, var netamaður á togaranum Breka. Sævar Brynjólfsson, mikil aflakló, var þá skipstjóri og sama áhöfnin á Breka frá 1980 til 1994. Samheldnin var svo mikil að líkja má henni við gott íþróttalið með góðan þjálfara. Í þessum anda mótaðist ekki bara Jói heldur líka aðrir skipsfélagar hans. Ekkert var gefið eftir og keppnisandinn var þannig að Breki var ekki bara aflahæstur yfir Eyjarnar í eitt ár heldur í mörg ár og gjarnan í fyrsta til fimmta sæti á landsvísu.
Í þessu andrúmslofti skapaðist ekki bara góður keppnisandi heldur frábær mórall sem einkenndist af hlátri, gríni og samveru með mökum. Þetta tímabil mótaði Jói grunninn í viðhorfi sínu til sjómennskunnar sem hann stundaði af lífi og sál. Vinnuandi hans og gleði smituðust út til skipsfélaga sem hann dreif áfram. Hann gaf heldur ekkert eftir gagnvart yngri mönnum þrátt fyrir að hann væri kominn á aldur. Þegar hann var óvænt kallaður í afleysingatúra eftir að hann hætti störfum, stökk hann á fætur og andrúmsloftið varð rafmagnað. Móðir mín þeyttist um húsið í leit að því sem vantaði, hann hjálpaði til og síðan ruku þau niður á bryggju.
Góður liðsandi og góður skipstjóri
Sem sjómaður og félagi um borð sagði Jói gjarnan sögur af æskuárunum á Langanesinu á Þórshöfn og menn þekktu orðið Langanesið eins og lófann á sér þrátt fyrir að hafa aldrei komið þangað. Sagan var oft endurtekin með ólíkum hætti. Ef honum var bent á það, þá átti hún bara að vera svona, punktur. Menn fengu bara að vera eins og þeir voru. Þrjú og hálft ár eru síðan Jói fósturfaðir minn lést en tilgangurinn með þessari grein er ekki að skrifa minningargrein um hann heldur að benda á hvernig liðsandinn um borð í skipum með góðan skipstjóra og góða samheldna áhöfn getur mótað menn líkt og gerðist hjá honum.
Það er því ætlunin að beina hér spjótum að ástríðu fósturföður míns því að það er sú hlið sem snýr að mér sem manneskju sem upplifði hann í þessum farvegi þegar ég lít til baka. Auðvitað hefur hver áhafnarmeðlimur sína sögu að segja um góða timabil togarans Breka og áhafnarinnar. Ég sem fósturdóttir Jóa og blaðamaður Eyjafrétta ákvað því að ræða við nokkra skipsfélaga Breka og fá þá til að segja sögur af Jóa og móralnum um borð og hvers vegna ástríða fósturföður míns var svona mikil til sjómennskunnar og hvað mótaði hana! Ég ræddi því við Óskar Ólafs, Jón Þór Geirs, Sigga Vignis og Hjalta Hávarðar.
Hrekkirnir
Um borð í Breka var einstök stemming og dugnaðarforkar í hverju skipsrúmi. Oft var mikill galsi í mönnum og margir æði stríðnir einstaklingar um borð. Hrekkirnir voru nú yfrleitt góðlátlegir en miðuðust við að láta menn springa. Kátt var á hjalla þegar sögurnar voru rifjaðar upp með þeim sem ég talaði við. Jón Þór segir að það hafi gengið mjög illa að hreyfa við Jóa. „Hann haggaðist aldrei, var alltaf „lieglad“. Með sama pottlokið og eins og Finnbogi sonur hans er með í dag. Ekki ólíkir. Hnífnum var stungið undir húfuna þegar trollið var bætt á dekkinu. Auðvelt að grípa til hans.
Nema svo datt einhverjum í hug að hrekkja Jóa. Hann sofandi og húfan sett á suðu í þvottavélinni. Hún var þvæfð eins og lopi. Það tók nokkra daga og húfan orðin eins og gyðingapottlok og hnífurinn náttúrulega tolldi alls ekki á sínum gamla stað. „Jói skildi ekkert í hvað hafði gerst með húfugarminn. Hann var ekkert látinn vita af þessu en allavega sagði hann ekki orð. Kenndi engum um og leitaði ekki sökudólga,“ segir Jón Þór.
Inniskórnir
Einn úr áhöfninni kom oft hlaupandi á klósettið og smeygði sér í inniskónna á leiðinni. „Við áttum það til að festa skó með skrúfu í pallinn og eitt skiptið var þessi ágæti maður fórnarlambið. Við sátum á spjalli í stakkageymslunni og peyinn kemur inn á fullu. Þurfti nauðsynlega að komast á klósettið. Gera númer eitt eða tvö, skipti ekki öllu en skildi ekkert í því að um leið og hann fer í inniskónna er allt fast og hann steinliggur. Þetta þótti okkur náttúrulega óskaplega fyndið,“ segir Jón Þór.
Skeggið
Og Jón Þór heldur áfram með sögur af hrekkjum sem heppnuðust. „Það var nú svipað með Svenna Valgeirs sem var lengi stýrimaður hjá okkur. Hann var alltaf mjög vel til hafður, ný rakaður og flottur. Einn túrinn endaði með því að við tókum hnífana úr rakvélinni hjá honum og földum þá. Allt í einu byrjaði Svenni að safna skeggi. Sagði aldrei neitt og spurði aldrei hver tók hnífana. Þetta þótti okkur alveg ómögulegt og endaði með því að ég tók blektúpu úr penna og tróð henni upp í vaskinn. Næsta morgun kemur Svenni kallinn allur blár í framan og um hendurnar. Hann hafði skrúfað frá krananum og ætlaði að skola sig. Kom ekkert nema blátt úr helvítis fyllingunni og þá var sá hrekkur alveg hundrað prósent heppnaður.“
Hákarlinn
Hjalti og Jón Þór voru báðir með annan hrekk alveg á hreinu. Jóa var nóg boðið þegar við vorum að hífa hákarl upp úr mótttökunni. Þurfti að setja band í gegnum kjaftinn á hákarlinum. Jói liggur á fjórum fótum með kaðal í hendinni og er að setja höndina inn í kjaftinn á hákarlinum. Kemur kaðlinum fyrir og liggur á fjórum fótum eins og fyrr segir. Kemur er einhver góður, stígur ofan á kjaftinn á hákarlinum sem lokast næstum. Jói hélt náttúrulega að hákarlinn væri lifandi og urlaðist upp.
Sér svo sökudólginn sem hlær eins og vitleysingur! Þá stóð minn upp og gaf honum einn gúmóren. Hann rotaðist ekki en þarna var mælirinn fullur. Þetta var eina skiptið sem ég sá þennan öðling skipta skapi,“ segir Jón Þór og Hjalti tók undir að Jói varð brjálaður þarna og gaf drengnum á kjaftinn.
Vinur í Bremenhaven
Jói átti vin í Bremenhaven og hann sagði Óskari í einni siglingunni á Bremenhaven að hann hefði verið að róa með manni sem hét Gunther árið 1960. Höndlarinn, íslenskur strákur sem reddaði tollinum kemur um borð og Jói segir honum frá vini sínum í Bremenhaven. Strákurinn segir: Það býr Gunther við hliðina á mér. Hann var til sjós og ég skal tala við hann þegar ég kem heim. „Daginn eftir kemur kallinn og þar var kominn gamli skipsfélaginn og vinur Jóa í Þýskalandi. Ótrúlega fyndið og sýnir hvað heimurinn getur verið lítill. Ég gleymi þessu aldrei og hvað þeir voru ánægðir að hittast. Alveg lygilegt en þeir höfðu verið á sjó einhvers staðar fyrir austan,” segir Óskar. Hann bætir við að mamma og Jói hafi verið svo dugleg að ferðast. „Mér fannst hann vera orðinn svo fullorðinn sem hann var ekki. Þau fóru með húsbílinn með Norrænu og út um allt. Aldrei neitt mál hjá honum. Mér fannst hann ekki tala mikla ensku og ótrúlegt að ferðast út um allt á húsbílnum. Fóru kannski nyrst í Noregi að heimsækja ættingja og svo suður úr öllu.“
Smygl í Breka
Hjalti minnist þess eitt sinn þegar Breki er að koma úr siglingu frá Bremenhaven og hafði komið við í Danmörku. „Þegar við komum heim beið okkar fjöldi lögreglumanna ásamt leitarhundi. Þeir fóru strax um borð og gengu beint að pakkningunni sem var límd undir körum á dekkinu. Í pakkningunni var kókaín sem síðar kom í ljós að var að andvirði 75 milljónir íslenskra króna sem var mikill peningur þá,“ segir Hjalti.
Sjómenn nýttu siglingar í þá daga til að kaupa ódýr heimilistæki. Í þessari siglingu keypti Jói vídeótæki og faldi það á sama stað og kókaínið var geymt. Hefðu verið í slæmum málum því lögreglan vissi nákvæmlega hvar kókaínið var geymt: “Já, það munaði litlu og sem betur fer hafði enginn okkar hreyft við kókaínpakkanum,“ sagði Hjalti.
Árin á Breka voru einstök og Sævar var einstakt ljúfmenni og fiskinn með eindæmum. Margoft var hífður fullur poki en ekki kastað aftur, heldur farið á nýjan stað. Sama má segja um Hafsteinn kokk. Hann passaði upp á mannskapinn. Það fór enda þannig að þegar Vinnslustöðin sagði Sævari upp vegna þess að hann fiskaði frekar meira en rétta sort þá fórum við flestir yfir á Dalarafn , sagði Jón Þór. Það mætti líkja liðsanda Breka við liðs- og keppnisanda fótbolta- eða handaboltaliðs með valinn mann í hverju horni og góðan þjálfara. Í þannig anda fannst mér fósturfaðir minn mótast í þau fjórtán ár sem hann var á Breka. Þessi keppnisandi fylgdi honum út lífið þar til hann hætti að róa.
Anna Lilja Marshall
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst