Hæfileikakeppnin Skjálftinn verður haldin í þriðja sinn þann 11. nóvember næstkomandi. Í ár fengu allir skólar á Suðurlandi, frá Þorlákshöfn að Höfn í Hornafirði boð um þátttöku og voru alls sjö skólar sem skráðu sig til keppni. Skjálftinn byggir á hugmyndafræði Skrekks sem haldið hefur verið í Reykjavíkurborg í meira en 30 ár.
Markmið Skjálftans er að efla sköpunargáfu, kenna ungmennum að hugsa út fyrir rammann og að þjálfa þau í markvissu og langvinnu hópastarfi. Einnig gefur Skjálftinn ungmennum kost á að kynnast ólíkum störfum innan sviðslista og getur þátttaka í svona verkefni hjálpað nemendunum við að styrkja sjálfsmynd þeirra og eflt þau félagslega.
Hugmyndin að atriðinu kemur frá nemendunum sjálfum í skapandi ferli. Það er mikil hugmyndavinna á bakvið verkið og krakkarnir skrifuðu öll nokkrar hugmyndir niður á blað og völdu í sameiningu þær hugmyndir sem þeim langaði til að skapa og blönduðu hugmyndum saman í eitt atriði. Með þessu verkefni fá ungmennin okkar tækifæri til að koma fram boðskap, þau geta komið á framfæri einhverju sem þeim brennur í hjarta og þau vilja að aðrir taki til sín.
Emma Bjarnadóttir og Birta Marinósdóttir leiða hópinn í ár. Eyjafréttir slóu á þráðinn við Emmu og spurðu hana út í verkefnið.
Emma segir að starf leiðbeinanda sé að leiða vinnuna en stjórni ekki neinu tengdu atriðinu sjálfu. Leiðbeinandi aðstoðar nemendurna í hugmyndavinnunni, setur fram verkefni til að hjálpa þeim í sköpunarferlinu og leiðbeinir þeim í að halda markvisst áfram með verkið. Helsta áskorunin er að finna út hvernig krökkunum finnst best að koma hugmyndum sínum á framfæri og að þeim líði vel með að segja sína skoðun, allir eiga að hafa rödd í sköpunarferlinu. Emma fékk hana Birtu Marinósdóttur í lið með sér til að leiðbeina þessu áhugaverða og skemmtilega verkefni.
Hvernig fékkst þú þetta verkefni? Ég er búin að vera í afleysingum sem danskennari í grunnskólanum á yngsta stigi síðan í janúar. Á síðustu önn fékk ég einnig tækifæri til að leysa af í leiklistar val áfanga á unglingastigi og kom þetta verkefni upp í framhaldinu af því.
Fer mikil vinna í þetta? Já, það fer rosalega mikil vinna í þetta. En Þetta er alveg hrikalega flottur hópur sem stendur á bakvið atriðið og þau hafa öll sín verkefni sem þau bera ábyrgð á, út frá þeirra áhugasviði. Það eru svo fjölbreytt hlutverk í boði, markaðsmál og samfélagsmiðlar, leikstjórn, handritshöfundur, danshöfundur, tæknimál, smink og hár, búningahönnun, sviðstjóri, leikari og dansari. Þau sinna sínum hlutverkum vel og eru metnaðarfull með verkefni sín. Það fór langur tími í undirbúnings ferlið sem samanstóð af hugmyndavinnu til að mynda atriðið sjálft, æfingum til að hrista hópinn saman og mynda traust innan hópsins. Síðustu æfingar hafa farið í að fínpússa atriðið og lagfæra það sem að gengur ekki upp.
Ertu að taka þátt í þessu í fyrsta skipti? Já, þetta er fyrsta skipti sem Grunnskóli Vestmannaeyja tekur þátt í Skjálftanum. Við Birta eigum báðar langa sögu í Leikfélagi Vestmannaeyja svo við þekkjum vel sköpunarferlið á leikverki og erum að nýta okkur þá reynslu inn í þetta verkefni.
Hvernig leggst þetta í þig? Þetta leggst alveg ótrúlega vel í mig. Ég er alveg rosalega ánægð með hópinn og mér finnst þau vera að sinna sínum hlutverkum vel og eru metnaðarfull í sínum ábyrgðarhlutverkum.
Hafa æfingar gengið vel? Já æfingar hafa gengið mjög vel, þetta er svo flottur hópur og þau vinna vel saman. Hugmyndavinnan var stór partur af æfinga tímabilinu og það var virkilega gaman að sjá hversu vel þeim gekk að blanda saman mismunandi hugmyndum sem myndaði síðan loka atriði.
Hversu margir taka þátt í Skjálfta frá Vestmannaeyjum? Það eru í kringum 30 nemendur sem koma að atriðinu.
Verður farin hópferð á Skjálfta? Já við erum að stefna á það. Nemendafélagið er að vinna að því að skipuleggja ferð um þessar mundir.
Verður hægt að horfa á þetta í sjónvarpinu? Keppnin verður sýnd í beinni á Rúv laugardaginn 11. Nóvember kl 20:00
Er hægt að fylgjast með ferlinu? Krakkarnir eru með instagram aðgang sem þau nota til að sýna frá ferlinu og viljum við hvetja alla til að leita af þeim og fylgjast með: @Skjalftinn.grv.
Hópurinn sem tekur þátt í Skjálfta í ár.
Hópurinn hefur lagt mikla vinnu í verkið. Hér má sjá hluta af hópnum á æfingu.
Hvert er þitt hlutverk í skjálfta? Mitt hlutverk í skjálfta er að ég er danshöfundur í atriðinu og er líka í buningar vinnunni og er að gera búninga fyrir atriðið.
Hvað finnst þér Skjálfti hafa gert fyrir þig? Það sem mér finnst að skjálfti hefur gert fyrir mig er að ég þori að koma fram við annað fólk og segja skoðunina á hlutum t.d eins og að ég væri að segja skoðunina á búningum fyrir atriðið.
Hefur farið mikill tími og vinna í undirbúning? JÁ! Við stelpurnar erum búnar að vera á fullu í að vera að stússast í þessu meistaraverki okkar að við erum farnar að hittast sumar eftir skóla og pæla i dönsum og svoleiðis:)
Er eitthvað sem þú hefur lært í Skjálfta sem mun nýtast þér í framtíðinni? Já ég myndi segja það að ég gæti gert marga hluti í einu.
Hvernig leggst sýningardagurinn í þig? Ég kemst því miður ekki upp á land því að ég er að leika í leikritinu Gosa og það fer akkúrat fyrir en ég mun hvetja stelpurnar okkar úr eyjum heima á RÚV.
Hvert er þitt hlutverk í skjálfta? Leikstjórn og aukahlutverk.
Hvað finnst þér Skjálfti hafa gert fyrir þig? Skjálfti hefur hjálpað mér að þora tala við fleiri og eignast fleirri vini.
Hefur farið mikill tími og vinna í undirbúning? Já, við höfum verið á fullu á æfingum fullt af tímatökum, æft dansana, hugsað úti búningana/tækni og fínpússa atriðið.
Er eitthvað sem þú hefur lært í Skjálfta sem mun nýtast þér í framtíðinni? Já, sjálfstraust orðið betra.
Hvernig leggst sýningardagurinn í þig? Spenna og pínu stress en er mjög spennt að sýna atriðið.
Hvað stendur uppúr? Það sem stendur upp úr er það hvernig við vinnum saman og hvað allir geta sagt sínar hugmyndir og gert það sem þeir vilja , það sem stendur út í atriðinu er hvað áhorfendur geta lært af atriðinu og sumir hafa farið í gegnum það sem er í atriðinu.
Hvert er þitt hlutverk í skjálfta? Ég er sviðsstjóri og í búningahönnun og er auka persóna í leikritinu sjálfu.
Hvað finnst þér Skjálfti hafa gert fyrir þig? Hann hefur hjálpað mér að kynnast fleiri fólki.
Hefur farið mikill tími og vinna í undirbúning? Það er búið að vera mikill undirbúningur og við erum aðalega búin að vinna við leikritið sjálft.
Er eitthvað sem þú hefur lært í Skjálfta sem mun nýtast þér í framtíðinni? Ég hef lært að vinna betur í hóp að vera jákvæður.
Hvernig leggst sýningardagurinn í þig? Ég er mjög spenntur fyrir sýningardeginum.
Hvað stendur uppúr? Það sem stendur upp úr fyrir mér er að krakkarnir ráða hvernig leikritið er.
Greinina má einnig lesa í 21. tbl Eyjafrétta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst