Nú styttist allverulega í að fólk fari að gefa sig upp í það sæti sem það sækist eftir í prófkjörum fyrir Alþingiskosningarnar sem verða í haust. Ekki eru allir flokkar þó með prófkjör. Spennan er einna mest hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem stefnir í að 3-4 komi til með að berjast um oddvitasætið í Suðurkjördæmi.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem nú skipar efsta sætið mun gefa kost á sér aftur. Þá stefnir allt í að Ásmundur Friðriksson muni setja stefnuna á það sæti einnig, en hann liggur þessa dagana undir feldi og íhugar vandlega stöðu sína með sínum stuðningsmönnum.
Einnig má búast við yfirlýsingu frá Elliða Vignissyni, fljótlega í ágúst, þess efnis að hann sækist eftir þessu sama sæti. Hann líkt og Ásmundur liggur undir feldi. Þá er óupptalin Unnur Brá Konráðsdóttir, sem skipaði annað sæti listans í síðustu kosningum. Spurningin er hvort hún steypi sér gegn áðurnefndri þrenningu eða mynd kosningabandalag með einhverju þeirra og sætti sig áfram við annað sætið. Því hefur verið hvíslað að bandalag gæti verið í uppsiglingu milli Elliða, Unnar Brá og Villhjálms Árnasonar að þau sækist eftir þremur efstu sætunum.
Eitt er allavega víst, að það eru spennandi tímar framundan í pólitíkinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst