Þegar ég var að vaxa úr grasi var mikil upplifun að fara í bíó. Þá voru aðallega sýndar Amerískar myndir um líf kobbojara og hetjulega baráttu þeirra við indjána. Kobbojararnir voru miklu flottari en índjánarnir. Þeir voru með hatta, notuðu byssur, höfðu hnakk á hestinum og voru svakalega klárir í slagsmálum. En indjánarnir voru berir að ofan, málaðir í framan, með sítt hár og svolítið bjánalegar fjaðrir á hausnum. Vopnin þeirra voru aðallega spjót og bogi.
Sumir indjánar voru bara með fáránlegan hamar, stein sem var búið að binda á spítu. Þeir voru allir drepnir strax. Svo voru indjánarnir ekki með neinn hnakk á hestinum og voru alltaf að fljúga af baki. Einn kobbojari gat léttilega barist við hundrað indjána og unnið. Indjánarnir voru nefnilega svolítið vitlausir. Oft komu þeir bara hlaupandi með hamarinn, æpandi og gólandi og urðu svakalega hissa þegar kobbojarinn tók bara upp byssuna og skaut þá. Þetta hefði engum kobbojara dottið í hug. Það var bara eitt sem indjánarnir voru góðir í, það var að læðast. Stundum brá öllum í bíóinu rosalega og kobbojaranum smávegis þegar indjáni var allt í einu búinn læðast alveg að honum, þá lentu þeir í slagsmálum og kobbojarinn kýldi indjánan í klessu og allir urðu rosalega fegnir. Læknirinn hjá indjánunum var skrýtinn. Hann var með grímu og hundrað bein hangandi á sér og gólaði, hoppaði og stappaði niður fótunum í kring um sjúklinginn og skvetti svo bara eðlupissi á hann. Það læknaðist enginn. Svo var alltaf einn höfðingi. Hann var tvöhundruðogfimmtíu ára með hvítt hár og sat allan daginn alveg útúrreyktur og sá þar af leiðandi allskonar sýnir og bullaði tóma steypu sem varð á einhvern óskiljanlegan hátt strax að lögum hjá índjánunum. Það var ekki gott að vera tekin til fanga hjá indjánunum. Indjánar voru nefnilega vondir menn. Þeir bundu sína fanga við staur og kveiktu í sprekum undir þeim, sérstaklega þegar þeir tóku konur og gamalmenni til fanga, en kobbojararnir björguðu sem betur fer föngunum alltaf rétt áður en þeir brenndust. Kobbojara datt aldrei í hug að ráðast á konu. Þeir voru ekki aumingjar. Þeir bara skutu indjána með byssu. Það var þarfaverk og ekkert mál.
Kobbojararnir þurftu oft að skreppa á barinn sérstaklega þegar þeir voru búnir að drepa mörg hundruð indjána. Menn verða svakalega þyrstir á því. Það var mjög sérstakt andrúmsloft á þessum börum. Alltaf þegar einhver gekk inn á bar sló þögn á alla gesti og þeir sem voru fyrir á barnum litu þann sem inn kom mjög illu auga. Kannski var það vegna þess að konur voru ekki til skiptana á þessum börum. Undantekningalaust brutust út mikil slagsmál á barnum, algengt var að stólar og aðrir húsmunir væru brotnir á höfðinu á bardagamönnum, við það urðu menn í mesta lagi rangeygðir í þrjár sekúndur. Öruggt var að einhver var kýldur í gegn um glugga eða fellihurð og endaði í vatni sem ætlað var fyrir hesta. Kobbojarar voru heljarmenni, það sást aldrei mikið á þeim þrátt fyrir indjánadráp, brennivínsþamb og blóðug slagsmál.
Þessar kvikmyndir höfðu mikil áhrif í Vestmannaeyjum. Þegar sýningu lauk hlupum við strákarnir heim, settum á okkur hatta og byssubelti og rukum út í hópum að drepa indjána. Og ekki höfðu þessar kvikmyndir minni áhrif á þá sem eldri voru. Af því að það voru ekki neinir indjánar til að drepa í Vestmannaeyjum, mældu margir manndóm sinn í slagsmálagetu og héldu stórsýningar fyrir utan Samkomuhúsið eftir dansleiki, berir að ofan í nepjunni. Stundum tókust menn í hendur og skemmtu sér saman eftir að hafa lamið hvorn annan í spað, eða svona eins og þeir hefðu verið að ljúka jafnteflisleik í fótbolta. Ég hef alltaf verið Guði þakklátur fyrir það að leyfa mér að vera viðstaddur þennan lærdómsríka hanaslag.
Ég hef haft nokkuð gagn og gaman af því eftir því sem aldurinn færist yfir að líta yfir farinn veg og velta fyrir mér hvað það er sem mótar mann, þá ekki síst hvað hefur mótað skoðanir mínar. Því miður hefur það stundum verið óheiðarlegur áróður. Ég er nokkuð viss um að fáir kynþættir hafi verið beittir jafn miklu ofbeldi og indjánar. Í fyrsta lagi voru þeir hraktir af sínu landi og tekin af þeim lífsbjörgin. Í öðru lagi þá var framleiddur ömurlegur og grófur áróður gegn þeim sem birtur var á kvikmyndatjaldinu, einhverju áhrifaríkasta og öflugasta áróðurstæki þess tíma. Inntak áróðursins var að indjánar væru frumstæðir hálfvitar sem stæðust engan samanburð við hvíta manninn. Mín skoðun er sú að þessi kynþáttur hafi aldrei náð sér eftir þessa aðför, var hreinlega rutt úr vegi. Getur verið að svona nokkuð sé skipulagt? Það er ekkert óeðlilegt að spyrja sjálfan sig þeirrar spurningar. Bandaríkjamenn sem vilja birtast sem sjálfskipaðir dyraverðir réttlætisins, fulltrúar lýðræðis og frelsis, hafa mikið á samviskunni. Framkoma þeirra gagnvart indjánum, innflutningur og þrældómur blökkumanna, miskunarlausar og ónákvæmar árásir á saklaust fólk með kjarnorkuvopnum á Japan, napalm í Víetnam og flugskeytum á Írak svo eitthvað sé nefnt, samræmist ekki þeirri ímynd sem reynt er að byggja upp og gefur tilefni til þess að ætla að hepppilegt geti verið að beina sjónum manna í aðrar áttir. Það hefur tekist bærilega. Árásin á tvíburaturnanna í New York 11. september 2001 var óréttlætanlegt voðaverk, en engu að síður afleiðing af hernaðarbrölti bandaríkjamanna. Áróðursmeistarar bandaríkjamanna sáu í því tækifæri. Þeim tókst í gegn um fjölmiðla, áhrifaríkasta áróðurstæki nútímans að byggja upp í hugum íbúa í hinum vestræna heimi að þessi dagur væri sá svartasti í sögunni, dagurinn sem ráðist var á Bandaríkin, þarna hefði níðingur ráðist á sakleysið og safna þyrfti liði og hefna. Óvinur Bandaríkjanna er óvinur allra réttlátra manna. Margir bitu á agnið. Bandaríkjamenn eru snjallir markaðsmenn. Þannig mun sagan dæma þá.
Hún er áleitin spurningin um það hvort heimurinn væri verri eða betri ef indjánar hefðu í friði fengið að þróa Ameríku til dagsins í dag.
Páll Scheving Ingvarsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst