Þetta toppar endann á góðu ári

Margrét Lára Viðarsdóttir var í gær kjörin knattspyrnukona ársins hér á landi í þriðja sinn og annað árið í röð. Hún átti frábært ár með Val og landsliði Íslands og sló markamet með báðum liðum þrátt fyrir að vera ung að árum.

,,Ég átti alveg eins von á þessu en það voru þrjár frábærar knattspyrnukonur sem fengu verðlaunin í dag og hefðu allar átt þetta skilið, sagði Margrét Lára í samtali við Fótbolta.net eftir að hún hafði tekið á móti verðlaununum.

,,Þetta er mikill heiður og mikil viðurkenning fyrir gott sumar. Þetta toppar endann á góðu ári. Ég er bara 21 árs og ég vona að ég geti haldið áfram að bæta mig og náð góðum árangri.”

Eins og við greindum frá í gærmorgun mun Margrét Lára halda til Bandaríkjanna í dag þar sem hún mun vera við æfingar og skoða aðstæður hjá liði Indiana sem er fimmta besta kvennalið heims í dag og hún er spennt fyrir því að skoða málin þar.

,,Mér líst vel á það, það verður gaman að sjá hvernig fer í Bandaríkjunum. Það er mikið tækifæri að fá að fara þarna út og fá að sjá hvernig þeir setja þetta upp,” sagði hún og aðspurð sagðist hún ekki hafa planað að skoða Bandarísk lið áður en Indiana sýndi henni áhuga.

,,Nei, allavega ekki á þessum tímapunkti. Ég hef mikinn áhuga á að fara í bandarísku atvinnumannadeildina þegar hún kemur en það verður ekki fyrr en 2009.”

,,Nú fer að hefjast árið fyrir það þar sem liðin eru að skoða leikmenn fyrir atvinnumannadeildina og velja úr. Það er ákveðið tækifæri í því líka og þetta gæti verið stökkpallur upp í atvinnumannadeildina ef ég færi þangað.”

Margrét hefur til þessa helst haft áhuga á að leika í Svíþjóð eða í Þýskalandi á næstu leiktíð en hvernig býst hún við að bandaríska deildin verði?

,,Það er mikil óvissa hvernig þessi atvinnumannadeild verður, hvort hún fái til sín sterkustu leikmenn Evrópu eða ekki,” sagði hún.

,,Það mun skipta mestu máli hvort þeir fái leikmenn eins og Mörtu og Birgit Prinz og fleiri stúlkur úr Þýskalandi og Svíþjóð. Ef það tekst ekki þá held ég að atvinnumannadeildin verði ekki eins sterk og hún gæti orðið. Ef það tekst hinsvegar þá yrði þetta án efa sterkasta deild heims.”

,,Það verður gaman að sjá hvað þeir ætla að leggja mikið í þetta, umgjörð, þjálfarateymi og slíkt sem mun skipta miklu máli.

Margrét Lára skoðaði einnig aðstæður hjá Djurgården í Svíþjóð í haust og útilokar ekki að kanna þann möguleika enn frekar að ganga í þeirra raðir.

,,Ég er bara að skoða það ennþá. Það er ennþá inni í myndinni og það er flottur klúbbur sem væri án efa möguleiki á að skoða frekar. Ég hef hug á að skoða Svíþjóð ennfrekar og svo sé ég til hvað ég geri.”

Þrátt fyrir að hafa mikinn hug á að leika með atvinnumannaliði erlendis vildi hún þó ekki útiloka að vera áfram í Val þar sem hún hefur leikið undanfarin ár og slegið í gegn í íslensku deildinni.

,,Valur er frábært félag og það er verið að leggja mikið upp úr þjálfarateymi og umgjörð þar og það þarf góðan klúbb til að toppa það. Ég mun ekki fara úr Val nema eitthvað betra bjóðist.”

Nýjustu fréttir

Saltfisksala hjá meistaraflokkum ÍBV
ÍBV með mikilvægan sigur á ÍR
Kveikjum neistann: Jákvæðar vísbendingar
Hvattning til Eyjamanna
Heilsuefling starfsfólks fær aukið vægi
Handhafar Frétta-píramída 1992-95
ÍBV sækir ÍR heim
Siglt til Þorlákshafnar

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.