Talsvert öskufjúk hefur verið í Vestmannaeyjum síðdegis í dag. Bæði fýkur staðbundin aska upp á Heimaey en einnig berst talsvert ofan af landi. Lesandi vefsins, sem ekki vildi láta nafns síns getið hafði samband við ritstjórn og spurði hvernig gengi með hreinsun bæjarins. Sá hinn sami taldi ekki nóg gert af hálfu bæjaryfirvalda og taldi þolinmæði margra á þrotum. Elliði Vignisson, bæjarstjóri segir hins vegar að til þessa hafi allt verið gert til að hreinsa upp þá ösku sem féll. Hann segir ennfremur að leitað hafi verið til nágrannasveitarfélaga með tæki til hreinsunar og að fleiri séu vonandi á leiðinni með Herjólfi í kvöld.