Aflaverðmæti í Eyjum minnkar um 700 - 800 milljónir
12. september, 2010
Eins og getið var um í síðustu Fréttum hófst nýtt kvótaár miðvikudaginn 1. september sl. Þeir útgerðarmenn, sem blaðið ræddi við, daginn áður en nýja kvótaárið hófst, voru heldur óhressir með þann seinagang að þeir skyldu ekki vera búnir að fá í hendur sína úthlutun. En nú liggja hlutirnir fyrir. Eins og greint var frá í síðasta blaði lá þá þegar fyrir að veruleg skerðing yrði á ýsukvótanum, sem og karfa. Aftur á móti var lítillega aukið við í þorski en sú aukning rennur að mestu leyti til strandveiðibáta og ámóta veiða.