Samgönguráðuneytið óskar eftir því í frumvarpi til fjaraukalaga fyrir þetta ár, að fjárheimildir til framkvæmda við Landeyjahöfn verði auknar um 350,5 milljónir króna. Fram kemur í frumvarpinu, sem lagt var fram á Alþingi í dag, að frá því höfnin var tekin í notkun í júlí á þessu ári hafi verið erfiðleikum bundið að halda henni opinni vegna sandburðar. Ástæður þessa séu í meginatriðum af tvennum toga, þ.e. mikið magn gosefna frá gosinu í Eyjafjallajökli og óhagstæðar og óvenjulegar ölduáttir.