Ferðir Herjólfs kl. 17,30 frá Eyjum og 19 frá Landeyjahöfn féllu niður
3. júlí, 2011
Á vef Herjólfs segir, að slæm skilyrði hafi verið til siglinga Herjólfs í Landeyjahöfn í allan dag. „Vindur hefur farið allt upp í 22 m/s í hviðum, ölduhæð allt að 2,6 m á Bakkafjöruduflum og sjólag í hafnarkjaftinum hefur verið slæmt auk þess sem Vesturfallið(sjávarstraumurinn meðfram ströndinni) er með mesta móti. Herjólfur hefur náð því að fara 2 ferðir í dag en því miður hefur þurft að fella niður 2 ferðir vegna veðurs og sjólags í mynni hafnarinnar. Skipstjóri og stjórnendur Herjólfs fylgjast vel með veðrinu og hafa verið í sambandi við Veðurstofuna sem telur ekki öruggt að veðrið gangi niður fyrr en í nótt. Þá segir á herjolfi.is að ef skilyrði batni þegar kemur fram á kvöldið mun Herjólfur reyna að sigla 2 ferðir út daginn. Þeir farþegar sem áttu bókað far með skipinu frá Vestmannaeyjum kl.17:30 eru beðnir um að fylgjast vel með fréttum á www.herjolfur.is eða á Facebooksíðu Herjólfs.
Rekstararaðilar Herjólfs biðja viðskiptavini afsökunar á þeim óþægindum sem þessi röskun á ferðum Herjólfs hefur haft í för með sér.