Venju samkvæmt var vikan eftir Þjóðhátíð með rólegra móti hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum og engin alvarleg mál komu upp sem hún þurfti að sinna. Það var kannski ágætt því lögreglumenn hafa haft nóg að gera við að vinna upp þau mál sem komu upp um verslunarmannahelgina. Þá hefur verið nóg að gera í að svara fólki vegna óskilamuna. Til þessa hefur verið talsvert af óskilamunum eftir Þjóðhátíð en nú bregður svo við að óvenjulítið af óskilamunum bárust til lögreglunnar eftir helgina.