Eyjamenn voru í tvígang slegnir í rot á gervigrasvellinum í Garðabæ í kvöld. Stjarnan skoraði mark í upphafi beggja hálfleika, rothögg fyrir ÍBV og strákarnir hreinlega náðu sér aldrei á strik í leiknum. Eyjamenn skoruðu reynda tvö mörk og þegar upp var staðið var það mjög umdeildur vítaspyrnudómur Kristins Jakobssonar, dómara sem skildi að. Lokatölur urðu 3:2 og Eyjamenn misstu um leið toppsætið aftur í hendur KR-inga, sem eru nú með pálmann í höndunum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.