Eyjastelpan Sigríður Lára Garðarsdóttir var á skotskónum í dag þegar íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, valtaði yfir Moldavíu 5:0. Sigríður Lára kom Íslandi í 3:0 í fyrri hálfleik en hún er eini fulltrúi ÍBV í liðinu. Ísland leikur í riðli með Moldavíu, Slóvakíu og Danmörku í undankeppni EM. Þegar tveimur umferðum af þremur er lokið, eru Ísland og Danmörk efst með sex stig en liðin mætast einmitt í síðustu umferðinni, á heimavelli Dana þar sem riðillinn er leikinn í Danmörku.