Eftir langvarandi kafla þar sem siglingar í Landeyjahöfn gengu án vandkvæða hafa siglingar þangað nú legið niðri í nokkra daga vegna veðurs. Tíðin hefur verið afleit og ölduhæð ítrekað farið yfir 5 metra, sem er það mesta frá því höfnin var tekin í notkun. Fyrir jól taldi Siglingastofnun að margt benti til þess að höfnin gæti lokast um lengri tíma vegna sandburðar jafnvel þótt sandburður sé nú ekki nema 1/8 af því sem hann var í haust. Enn hefur mælingabátur Siglingastofnunar ekki náð að kortleggja svæðið vegna ölduhæðar. Lóðsbátur Vestmannaeyjabæjar var þó við mælingar í morgun ásamt því sem ástandið hefur verið metið úr landi.