Kap VE kom til Busan í Suður-Kóreu í síðustu viku eftir nær tveggja og hálfs mánaðar siglingu frá Vestmannaeyjum. Vinnslustöðin seldi skipið til Rússlands. Kap verður gerð út frá Vladivostok í Rússlandi til uppsjávarveiða í Othotskhafi úti fyrir Kampsjatka. Nýir eigendur byrja hins vegar á því að taka skipið í slipp í Suður-Kóreu og þangað er Kap nú komin.
�?etta kemur fram á vsv.is. Skipinu var siglt frá Vestmannaeyjum 12. apríl og til Kanaríeyja, þaðan áfram til Cape Town í Suður-Afríku, Singapúr og loks til Busan eftir siglingu í 74 daga!
Stytta hefði mátt ferðina um tvær til þrjár vikur með því að fara um Súesskurð í stað þess að sigla suður fyrir Góðrarvonahöfða. Rússnesku útgerðarmennirnir gáfu þá skýringu í Eyjum að það væri svo dýrt að fara um Súesskurðinn að þeir vildu frekar fara lengri leið og spara þannig fjármuni.
Gert er ráð fyrir hálfs árs samfelldu úthaldi skipsins á veiðum við Kampstjatka og að landað sé í verksmiðjuskip eða í höfnum.
Að því sögðu er Ka, áður Gullberg VE þar með úr sögu Vinnslustöðvarinnar með þökkum fyrir hið liðna.