Laugardaginn 29. júlí sl. kom um 140 manna hópur mórmóna í heimsókn til Eyja. Í hópnum voru m.a. Íslendingar ofan af fastalandinu og Danir úr hópi yfirmanna mormóna á Norðurlöndum. Einnig voru í ferðinni um 40 til 50 einstaklingar komnir alla leið frá Utah. Flestir þeirra voru afkomendur Runólfs Runólfssonar frá Stóra-Gerði og Dölum og Valgerðar Níelsdóttur sem ársgömul flutti ásamt móður sinni ofan úr Landeyjum að Brekkuhúsum.
Um tvítugt giftust þau og bjuggu lengst af í Kastala sem var þar sem Joy er núna til húsa. Ellefu árum síðar fluttust þau til Utah og bjuggu lengi í Spanish Fork eins og flestir Íslendinganna. Kári Bjarnason og Fred Woods prófessor við BYU háskólann í Utah höfðu veg og vanda að því að skipuleggja daginn, en ásamt þeim tók Elliði Vignisson bæjarstjóri á móti hópnum. Auk þeirra fluttu erindi systurnar Lil Shephard, sem skipulagði ferðina, og Vina Foster og frænka þeirra Lanae Baxter.