Á síðasta bæjarstjórnarfundi lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram breytingatillögu vegna breyttra aldursviðmiða frístundastyrksins. Frístundastyrkur er upphæð sem er veitt foreldrum árlega til niðurgreiðslu skipulagðs tómstunda- og íþróttastarfs barna sem margsannað er að hafi ótvírætt forvarnargildi og geti dregið úr líkum á frávikshegðun (fíkni-, ofbeldis- og glæpahegðun).
Sjálfstæðismenn vilja hækka aldursviðmiðið m.a. til að sporna við brottfalli á viðkvæmum aldri
Frístundastyrkurinn hefur verið veittur til foreldra barna á aldrinum 6-16 ára en fyrir fundinum lá tillaga um að hann yrði greiddur til barna 2-16 ára en svigrúm er til þess innan fjárhagsáætlunar þessa árs sökum dræmrar notkunar hans. Í fagráði fjölskyldu- og tómstundaráðs vildu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja meiri áherslu á að skoða það að hækka aldursviðmiðið fremur en að lækka það en við úttekt á kostnaðarliðum á næsta fundi ráðsins var ekki tekið tillit til sjónarmiða fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Brottfall úr skipulögðum tómstundum og íþróttum er mikið áhyggjuefni þar sem mikilvægt er að börn og ungmenni stundi íþróttir og tómstundastarf sem lengst til að draga úr líkum á því að börn og ungmenni leiðist í neikvæðan lífstíl. Því telja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að bæjaryfirvöld eigi að láta einskis ófreistað í að leggja sitt af mörkum til að hvetja þennan aldurshóp til félagslegrar þátttöku og íþrótta- og tómstundastarfs. Því lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram þá tillögu í bæjarstjórn 4. október síðastliðinn að aldursviðmið frístundastyrksins myndu ná frá 2ja ára aldri til 18 ára aldurs í því markmiði að efla þátttöku þessa viðkvæma aldurshóps í slíku starfi. Draga má líkum að því að slíkt myndi rúmast innan fjárhagsáætlunar þessa árs í ljósi dræmrar notkunar á frístundastyrknum og hægt yrði að taka tillit til þess við gerð næstu fjárhagsáætlunar. Hins vegar ákvað meirihluti H- og E- lista að fella þá tillögu Sjálfstæðismanna. Það harma bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins en binda vonir við að horft verði til þessa mikilvæga aldurshóps við næstu fjárhagsáætlanagerð.
Að lokum hvetja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fjölskyldufólk til að kynna og nýta sér frístundastyrkinn en frekari upplýsingar um hann má finna inni á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst