Ótrúlega skrýtin umræða um Herjólf ohf.

Er virkilega til staðar í Eyjum einbeittur vilji til að skaða þetta mikilvæga verkefni?

Grímur Gíslason

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með umræðunni um málefni Herjólfs ohf. undanfarnar vikur. Umræðu sem einkennst hefur af upphrópunum og ályktunum sem eiga sér enga stoð í veruleikanum. Blásið hefur verið upp moldviðri trekk í trekk og maður spyr sig óneitalega hver tilgangurinn sé. Er virkilega til staðar í Eyjum einbeittur vilji til að skaða eða jafnvel eyðileggja þetta mikilvæga verkefni?

Mikilvæg málefni eru sjaldnast til umræðu heldur er haldið af stað með tilbúin aukaatriði sem síðan er kynnt undir, með oft á tíðum undarlegum fréttaflutningi. Þar hefur miðillinn eyjar.net farið fremstur í flokki og er ástæða til að hugleiða hver tilgangurinn er með þessu ferðalagi. Í kjölfarið hafa síðan samfélagsmiðladómararnir látið að sér kveða og hafa þeir að vanda aðallega fjallað um menn og aukaatriði en minna um málefni.

Undarleg úrsögn Dóru Bjarkar
Það má segja að sá kafli þessarar umræðu sem enn stendur yfir hafi hafist með undarlegri úrsögn Dóru Bjarkar Gunnarsdóttur úr stjórn Herjólfs ohf. Úrsögn sem einhverra hluta vegna var orðin fjölmiðlamál nánast áður en stjórnarmenn félagsins höfðu fengið skýringar á hvað væri að gerast og án þess að upp hafi komið ágreiningur í stjórninni sem öðrum stjórnarmönnum var kunnugt um.

Það má vel vera að Dóra hafi haft aðra upplifun af starfi stjórnar en aðrir stjórnarmenn en ég á samt erfitt með að skilja flestar þær ástæður og raunar aðdróttanir sem hún setti fram í úrsagnarbréfi sínu. Þær eru flestar enn undarlegri í ljósi þess að frá því stjórn Herjólfs ohf tók til starfa í maí sl. þá hefur enginn ágreiningur verið uppi í stjórninni og pólitík hefur aldrei borið á góma við ákvarðanatöku eða umræður. Allt hefur verið samþykkt samhljóða og án athugasemda að undanskildu einu máli hjá fyrri stjórn þar sem formsatriði var afgreitt með atkvæðagreiðslu sem fór 4 – 1 og var niðurstaðan þverpóitísk, ef að svo má að orði komast.

Pólitík hefur aldrei komið upp í starfi stjórnar
Ég kannast ekki við að það hafi nokkurntímann verið póitískur ágreiningur í stjórninni, hvorki í fyrri stjórn né núverandi stjórn, eins og sumir hafa ýjað að, sem sýnir sig best í samhljóða afgreiðslum stjórnar á öllum málum. Stjórnin hefur verið samstíga og sammála í öllum þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið. Um það bera fundargerðir stjórnar glöggt merki.

Ég þáði ekki krónu fyrir vinnu í starfshópi um samninga við ríkið
Vegna umræðunnar um greiðslur og kostnað, sem að m.a. eyjar.net hefur t.d. fjallað um að undanförnu er rétt að fara aðeins yfir forsöguna.

Fyrrverandi bæjarstjórn leitaði eftir því við mig að ég tæki sæti í starfshópi sem hafði það markmið að ná samningum við ríkið um að Vestmannaeyjabær tæki við rekstri Herjólfs við komu nýrrar ferju sem er í smíðum. Þessi vinna hófst um mitt síðasta ár. Ég féllst á að taka þessa vinnu að mér og það var talsverð vinna sem fólst í því. Við unnum að þessu verkefni frá miðju siðasta ári þar til samningar náðust við ríkið á vordögum þessa árs.

Svo að þvi sé haldið til haga, og vegna aðdróttana um hagsmuni, pot eða greiðslur fyrir þá vinnu, er rétt að benda á að ég þáði engin laun fyrir þessa vinnu. Þær vinnustundir sem að ég eyddi í þetta verk skipta trúlega hundruðum á þessum tíma og ég hef aldrei þáð greiðslu fyrir þá vinnu og mun aldrei þiggja. Auk þess þá greiddi ég úr eigin vasa allan kostnað við ferðir og uppihald vegna fundarhalda ofl. og hef aldrei krafið og mun ekki krefja neinn um þann kostnað. Ég tók að mér þetta verkefni vegna áhuga míns á að vinna að bættum samgöngum milli lands og Eyja með hagsmuni Vestmannaeyja og Vestmannaeyinga að leiðarljósi.

Vestmannaeyjabær fékk síðan ráðgjafafyrirtæki til að aðstoða okkur í þeirri vinnu sem að við vorum að vinna og að sjálfsögðu greiddi bærinn þeim fyrirtækjum fyrir þá vinnu enda ekki algengt að sveitarfélög ætlist til þess að fyrirtæki vinni fyrir þau án greiðslu.

Hef ekki þegið og mun ekki þiggja greiðslu fyrir vinnu í framkvæmdastjórn
Ég tók síðan sæti í stjórn Herjólfs ohf þegar að fyrirtækið var stofnsett og mun væntanlega eiga rétt á að fá greidd stjórnarlaun fyrir setu mína í stjórninni, samkvæmt ákvörðuna aðalfundar félagsins, eins og aðrir stjórnarmenn og líkt og tíðkast almennt í stjórnum og ráðum. Hitt er aftur á móti rétt að benda á að frá því stjórnin tók til starfa hafa verkefni verið ærin. Verkefnastjóri sem ráðinn var í upphafi hvarf frá störfum og til að halda verkinu gangandi við brotthvarf hans hefur framkvæmdastjórn, sem stjórnin skipaði í upphafi og ég hef átt sæti í ásamt Lúðvík Bergvinssyni, séð um að halda öllum boltum á lofti og þar með verkefninu gangandi. Ég þori að fullyrða að sú vinna sem að falist hefur í því er langt umfram það sem getur talist til venjulegra eða eðlilegra stjórnarstarfa í hlutafélagi. Það liggja að baki tugir ef ekki hundruðir vinnustunda á undanförnum mánuðum í þessari vinnu og ég kannast ekki við að hafa fengið neinar greiðslur fyrir þá vinnu og hef alfarið hafnað því að þiggja greiðslur fyrir hana.

Hver er Eyjamaður?
Eitt af því sem umræðan á samfélagsmiðlum og í greinarskrifum hefur snúist um er að það þurfi að fá Eyjamenn til að vinna að þessu máli en ekki brottflutta Vestmannaeyinga. Skemmtileg en afar skrýtin umræða!

Hver er Eyjamaður?

Er það sá sem er fæddur í Eyjum?

Er það sá sem er nýfluttur til Eyja?

Er það sá sem að á heimilisfesti í Eyjum?

Er það mælt í þeim sköttum sem viðkomandi hefur greitt til Vestmanneyjabæjar undanfarna áratugi?

Ég veit ekki hver skilgreining þeirra sem tjáð hafa sig um málefnið er en hún virðist amk. vera eitthvað undarleg. Ég held td. að ég uppfylli öll þau skilyrði sem að framan eru talin, nema það að vera nýfluttur til Eyja! Samt skilst mér á umræðunni að ég sé ekki Eyjamaður!

Þó að reyndin væri sú að ég uppfyllti ekki öll framangreind atriði þá teldi ég mig samt vera Eyjamann og væri tilbúinn að leggja góðum málum í Eyjum lið hér eftir sem hingað til.

Svör til Alfreðs Alfreðssonar
Í grein sem Alfreð Alfreðsson skrifaði á eyjar.net fyrir skömmu spurði hann hvers vegna væri ekki hægt að fá hæft Eyjafólk í stjórn Herjólfs sem að vildi vinna án þess að hugsa um pólitík og einnig spurði hann hvers vegna ég væri þaulsetinn og vildi ekki víkja úr stjórn Herjólfs og hvort að ég héldi að aðrir gætu ekki leyst þessi störf.

Því er til að svara að það geta örugglega fleiri en ég gert þetta. Kirkjugarðar heimsins eru fullir af ómissandi fólki en samt heldur lífið áfram sinn vanagang og þess vegna tel ég hvorki sjálfan mig né aðra ómissandi á nokkurn hátt. Ég sóttist ekkert eftir því að setjast í stjórn Herjólfs ohf. Ég var einfaldlega beðinn um það, líklega vegna þess að þeir sem það gerðu töldu mig hafa einhverja þá þekkingu og reynslu sem nýst gæti verkefninu. Það er líka merkilegt að sjá þessu skrif Alfreðs því að ég man ekki betur en að hann hafi verið einn að þeim sem fóru í fararbroddi hóps sem kallaði sig; Horfum til framtiðar, og þessi hópur fékk mig til að flytja langt og mikið erindi um samgöngur milli lands og Eyja á gríðar fjölmennum opnum fundi í Eyjum. Ég vona að það hafi verið vegna þess að þeir hafi talið mig hafa eitthvað af viti að segja um málefnið.

Ég var einnig fenginn til að flytja framsögu á borgarafundi sem að Eyjarfréttir og eyjar.net efndu til um sama málefni. Vonandi vegna þess að ég hefði eitthvað gott til málanna að leggja.

Upphrópanir án raka á samfélagsmiðlunum
Í samfélagsmiðlaumræðunni hafa sprottið upp gamalkunnir frasar samfélagsmiðladómaranna: Spilling, klíka, eiginhagsmunapot, annarleg sjónarmið, allt í upplausn við mannaráðningar, mannvitsbrekkur ofl. ofl. hefur verið sett inn á þá miðla Allt samt án nokkurra raka eða efnisatriða sem bent hefur verið á. Einungis upphrópanir með engann bakgrunn. Hver er tilgangurinn og hvaða hvatir liggja að baki svona umræðu?

Faglega staðið að öllum ráðningum
Opinberar mannráðningar hafa oft verið gagnrýndar og stundum hefur verið talað um vinavæðingu ofl í þeim dúr. Frá upphafi ákvað stjórn Herjólfs ohf að leita til viðurkenndra fyrirtækja varðandi mannaráðningar og varð Capacent fyrir valinu. Það fyrirtæki hefur séð um þennan þátt fyrir stjórnina og á þeirra mati hafa allar mannaráðningar sem átt hafa sér stað verið byggðar.

Engin annarleg sjónarmið, engin pólitík, enginn klíkuskapur. Aðeins faglegt mat sem ráðningar hafa byggst á. Það er kannski sárt fyrir suma að horfast í auga við að svo sé en engu að síður staðreynd og því algjörlega ómögulegt að bera fram ásakanir á stjórnarmenn um annarleg sjónarmið, pólitík, klíkuskap, vinatengsl eða annað misjafnt í þessu efni, því stjórnin hefur einungis viðhaft fagleg vinnubrögð. Ráðningar hafa byggst á faglegu mati Capacent og engu öðru.

Breyting á rekstrarfyrikomulagi Herjólfs felur í sér gríðarleg tækifæri fyrir Eyjar
Breyting á rekstrarfyrirkomulagi Herjólfs í þá átt sem unnið hefur verið að síðustu mánuði er eitt stærsta hagsmunamál Vestmannaeyja í langan tíma og Eyjamenn munu sjá það strax á næstu dögum að breytinga til batnaðar er að vænta þegar að Herjólfur ohf. tekur við rekstrinum. Það er því með ólíkindum að Eyjamenn skuli ekki geta sameinast um þetta mikla hagsmunamál og staðið saman um það. Það eru engar líkur á því að annað tækifæri gefist í þessu efni ef að þessu verður klúðrað með einhverju rugli.

Hagsmunir Vestmannaeyja eiga að ganga fyrir
Það eru tækifæri á hverju horni til að gera betur og árangur er innan seilingar en það er eins og einhver hópur fólks vilji ekki framfarir og framþróun í samgöngum. Vilji ekki fjölgun ferða. Vilji ekki lækkun gjaldskrár. Vilji ekki að heimamenn hafi forræði yfir þjóðveginum milli lands og Eyja. Vilji ekki að Eyjamenn njóti hugsanlegs arðs af samgönguleiðinni. Finnist betra að sjá arðinn renna til hlutahafa stórfyrirtækis í stað þess að hann sé notaður til að fjárfesta enn frekar í bættum samgöngum milli lands og Eyja. Það er undarlegt og í raun afar annarlegt sjónarmið sem gengur út á eitthvað allt annað en að gæta hagsmuna Vestmannaeyja og Vestmannaeyinga.

Grímur Gíslason