Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu
Mynd/Pexels
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Árið 2003 voru þeir 14 en eru nú 8. Hátt á þriðja hundrað börn fæðast árlega sem eiga foreldra sem búa yfir hundrað kílómetra frá fæðingarþjónustu. Félags- og jafnfréttisráðherra hyggst í samvinnu við heilbrigðisráðherra stofna starfshóp til að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu og gera nauðsynlegar úrbætur.

Nýtt sjúkrahótel bætir þjónustuna
Þrátt fyrir að fæðingarstöðum fækkað, þá hefur fátt komið í staðinn fyrir það fólk sem býr fjarri fæðingarþjónustu. Sjúkratryggingar Íslands greiða ferðakostnað fyrir móður, en það er allt og sumt. Mikill kostnaður getur fylgt því að greiða fyrir gistingu nærri fæðingarþjónustu sem og ferðakostnað fyrir aðra fjölskyldumeðlimi og uppihald. Markmið nýs sjúkrahótels við Landspítala, sem opnar á næstunni, er m.a. að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem er að sækja þjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð og að veita konum af landsbyggðinni gistingu nálægt fæðingardeild meðan beðið er fæðingar sérstaklega ef að er um áhættufæðingar að ræða. Góð aðstaða verður fyrir fjölskyldufólk á sjúkrahótelinu.

Nauðsynlegt að breyta lögum um fæðingarorlof
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð ítrekað fram frumvarp, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, með breytingu á lögum um fæðingarorlof. Með frumvarpinu var lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Velferðarnefnd Alþingis tókst ekki að afgreiða frumvarpið á vordögum en því ber að fagna að félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra ætli að fara ítarlega yfir stöðu þessa hóps og leggja fram tillögur að úrbótum.

Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Nýjustu fréttir

Sýningin Geological Rhapsody opnar á morgun
Nýtt fyrirkomulag í Uppbyggingarsjóði Suðurlands
Íþróttahátíð ÍBV í kvöld
Bærinn niðurgreiðir heimsendan mat um 53%
Sigurður Guðmundsson á Hljómey í ár
Jákvæðar umræður um Eyjagöng á Hvolsvelli
Eyjakona og drottning íslenskrar knattspyrnu
Bæjarstjórnarfundur í beinni

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.