„Það er ekkert vit í öðru en að bregðast við aðstæðum í náttúrunni,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, um mikinn samdrátt í ráðgjöf fyrir humarvertíðina í ár.
Lagt er til að leyft verði að veiða 235 tonn eða aðeins rúmlega 20% af veiðiráðgjöf síðasta fiskveiðiárs. Á nýliðnu ári voru veidd 728 tonn af humri, sem er minnsti afli frá upphafi veiða árið 1957.
Bátar frá Hornafirði, Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum hafa mestar heimildir í humri og segir Sigurgeir að eðlilega muni þessi niðurskurður hafa neikvæð áhrif á þessum stöðum. „Ég fagna því samt að ekki hafi verið sett á algert bann því það er skynsamlegra að draga úr veiðum en halda samt áfram að vakta svæðin. Á þann hátt er hægt að átta sig á því hvað er að gerast,“ segir Sigurgeir í umfjöllun um humarveiðina í Morgunblaðinu í dag.