Smíðin á Vestmannaey og Bergey á áætlun
Frá skipasmíðastöð Vard í Aukra. Fremst á myndinni er skip sem er í smíðum fyrir Útgerðarfélag Akureyringa. Aftar til vinstri sést Vestmannaey í smíðum og Bergey til hægri. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Í skipasmíðastöð Vard í sveitarfélaginu Aukra í Noregi er unnið að smíði á nýrri Vestmannaey og Bergey fyrir útgerðarfélagið Berg-Hugin í Vestmannaeyjum, en Bergur-Huginn er dótturfélag Síldarvinnslunnar. Þeir Gunnþór Ingvarsson framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Guðmundur Alfreðsson útgerðarstjóri Bergs-Hugins voru í Noregi í síðustu viku þar sem fundað var um smíði skipanna. Guðmundur segir að smíðin sé nokkurn veginn á áætlun og flestir verkþættir vel á veg komnir.

„Í Aukra eru þrjú skip í smíðum en alls er Vard að smíða sjö systurskip fyrir íslensk fyrirtæki. Skipin sem smíðuð eru í Aukra eru Vestmannaey og Bergey ásamt skipi sem smíðað er fyrir Útgerðarfélag Akureyringa. Þessi skip eru 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Tvær 400 ha aðalvélar af gerðinni Yanmar verða í skipunum og í þeim verða tvær skrúfur. Þá verða skipin einnig búin nýrri kynslóð rafmagnsspila. Í skipunum verða íbúðir fyrir 13 manns og munu þau geta komið með um 80 tonn af ísuðum fiski að landi. Ákvarðanir um val á búnaði og allt fyrirkomulag í skipunum eru teknar í samráði við útgerðirnar og verður lögð áhersla á góða vinnuaðstöðu, góða meðhöndlun á afla og góða orkunýtingu. Gert er ráð fyrir að bæði skip Bergs-Hugins verði afhent eiganda í sumar. Skrokkar skipanna eru smíðaðir í einingum og eru þær gerðar í Salthammer og síðan dregnar á prömmum til Aukra þar sem þær eru settar saman. Það er mjög faglega staðið að smíði skipanna hjá Vard og full ástæða til að vera ánægður með vinnubrögðin,“ segir Guðmundur.

Af vef Síldarvinnslunnar.

Nýjustu fréttir

Netöryggisfræðsla fyrir foreldra grunn- og framhaldsskólanemenda
Áskriftarkort sundlaugagesta framlengd
Eyjarnar landa fyrir austan
Sýningin Geological Rhapsody opnar á morgun
Nýtt fyrirkomulag í Uppbyggingarsjóði Suðurlands
Íþróttahátíð ÍBV í kvöld
Bærinn niðurgreiðir heimsendan mat um 53%
Sigurður Guðmundsson á Hljómey í ár
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.