Auglýst var eftir lögreglumanni í afleysingar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum frá janúar árið 1995. Sigrún Sigurðardóttir hafði unnið sem lögreglukona á Ísafirði, Akureyri og var að leysa af á Höfn í Hornafirði þegar hún sá auglýsinguna. Þörfin fyrir að breyta til og prófa eitthvað nýtt, var til þess að hún sótti um. Sigrún bjó og vann í Vestmannaeyjum í níu mánuði þetta ár og úr varð örlagarík reynsla sem hafði mjög mótandi áhrif á líf hennar, allt til dagsins í dag.
„Ég átti að mæta til Eyja í byrjun janúar en var kölluð fyrr til vinnu, mætti milli jóla og nýárs, þar sem einn lögreglumaður hafði misst dóttur sína í hræðilega slysi. Ég mætti því á mína fyrstu vakt á gamlárskvöld. Fyrstu vikurnar í starfinu gekk lífið sinn vanagang og ekki var við öðru að búast þegar páskarnir gengu í garð. Rólegt var yfir bænum þennan páskadag, enda flestir heima í rólegheitum að úða í sig páskaegg. Sigrún var á vakt og rétt kíkti í hádegismat til vinkonu sinnar þegar kallið kom. „Ég var beðin um að fara og leita af fimm ára dreng sem ekki hafði sést til í smá tíma.“
Þetta var sorglegur dagur í Vestmannaeyjum en fimm ára drengur drukknaði í sjónum þennan dag. Sigrún sagði sögu sína í nýjasta tölublaði Eyjafrétta en hún hefur sjálf þurft að vinna út úr áfallinu sem hún varð fyrir þennan dag. Sigrún hélt lengi vel að þessi atburður hefði ekki haft nein áhrif á sig. „Ég var bara á vakt í vinnunni og þar að auki var enga áfallahjálp að fá og ekkert var rætt. Ég bara kláraði vaktina, fór heim, grét í koddann og gat ekki gert neitt meira,“ sagði Sigrún. „Það er mjög miklvægt að fólk átti sig á því hversu alvarlegar afleiðingar slík áföll geta haft fyrir heilsufar og líðan, hvort sem það er slys, missir, veikindi einhvers nákomins eða erfið atvik í starfi,“ sagði Sigrún sem er í Vestmannaeyjum þessa daganna, en hún ætlar að halda hér námskeið um áföll, áhrif og afleiðingar í Þekkingarsetrinu á morgun, „það er aldrei of seint að byrja vinna með áföllin sín eða erfiða reynslu,“ sagði Sigrún sem útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 2001, lauk meistaragáðu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri og doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2017. Rannsóknir hennar fjalla um kynferðislegt ofbeldi í æsku og áhrif á heilsufar, líðan og þróun heildrænna meðferða við því.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst