Dregin á asnaeyrum!
Berglind Sigmarsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja

Enn einu sinni fæ ég þær fréttir að fyrirtæki í ferðaþjónustu hér í Vestmannaeyjum sé komið á sölu. Er það bara ég sem er undrandi og óánægð, eða er verið að draga heilt samfélag á asnaeyrunum viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár? Hver mun greiða skaðann sem hlýst af röngum ákvörðunum sem teknar eru af stjórnvöldum? Fyrirtæki í ferðaþjónustu í Eyjum eru gjörsamlega búin að fá nóg.

Eyjamönnum var lofað samgöngubót fyrir nokkrum árum, höfn og nýju skipi. Það ríkti mikil bjartsýni. Margir einstaklingar fjárfestu í ferðaiðnaði, fjölskyldur hafa lagt fjármagn, metnað og mikla vinnu í að koma á fót rekstri og reynt af veikum mætti að halda velli í óstöðugasta umhverfi ferðamennskunnar sem til er á Íslandi. Það er virkilega sláandi og í raun bara grátlegt að fara yfir þann lista af fyrirtækjum hér í Eyjum sem fjárfestu í ferðaþjónustu. Það þarf ekki að fara nema örfá ár aftur í tímann til þess að geta talið upp a.m.k. 17 fyrirtæki sem hafa þurft að loka eða hafa skipt um rekstaraðila, sum tvisvar og jafnvel þrisvar, þá tel ég ekki með verslanir sem að sjálfsögðu finna fyrir þessu líka. Vonir okkar hafa því miður strandað í Landeyjahöfn. Ferðabólan kannski sprungin og farin framhjá og við ennþá ekki einu sinni komin úr startblokkinni.

Nú níu árum eftir að Landeyjahöfn opnaði er ekkert tiltökumál að höfnin sé lokuð fram í maí, full af sandi. Vegagerðin tekur lægsta tilboði í dýpkun hafnarinnar, frá fyrirtæki sem allir vissu að réði ekki við verkið! Það er von að tilboðið hafi verið lágt, en það er alls ekki hagkvæmt. Heilt samfélag er sett á bið og fyrirtæki og einstaklingar í gjaldþrot. Er það í lagi?

Nýja skipið okkar, sem loksins er tilbúið, er í gíslingu í Póllandi. Það eru einhverjar viðræður í gangi sem enginn veit hvernig ganga, kannski skiptir það hvort sem er engu máli!

Ég ræddi í dag við nokkra aðila sem reka ferðaþjónustufyritæki hér í Eyjum og það er ljóst að skaðinn veltur á tugum milljóna bara í apríl. Gisting er afbókuð á hverjum degi, borðapantanir á veitingastöðum afpantaðar á hverjum degi, afbókun á einum hópi í mat og gistingu, ein milljón, gestir sem ætluðu í prívat ferðir um síðustu helgi, tvær milljónir. Veitingastaðir og söfn verða af tekjum upp á hundruð þúsunda á hverjum degi. Samfélaginu blæðir.

Við sem enn stöndum eftir, hvernig við nennum að standa í þessu og berjast, er mér hulin ráðgáta. Stjórnvöld þurfa að taka sig á er varðar landsbyggðina. Hætta að afgreiða okkur eins og eitthvað pakk sem skiptir ekki máli. Ef ekki er eins gott að slökkva bara ljósin allsstaðar nema í Reykjavík og lifa við það. Margfalda peninga bara í bankanum, draga fiskinn að landi inní Hörpuna og setja kýrnar á beit á Laugardalsvelli. Það passar reyndar bara vel inní þetta ruglaða ævintýri sem þetta er orðið.

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri, hvert er planið?

Berglind Sigmarsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja

Nýjustu fréttir

Foreign Monkeys gefa út þriðju breiðskífu sína – „III“
Úttekt á fasteignagjöldum ársins
Mikil gróska í fimleikastarfi og mót framundan
Hlutafjáraukning Eyjaganga langt komin
Áframhaldandi hvassviðri út vikuna  
Áætlun um rýmingu Heimaeyjar eftir að Surtsey fór að gjósa
Loðnu að finna á stóru svæði
Íbúakosning samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.