Baráttudagur verkalýðsins er í ár haldinn hátíðlegur rétt eftir að kjarasamningar hafa verið samþykktir eftir langar og strangar samningaviðræður verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Það er ekki sjálfgefið að kjarabarátta verði eins hörð og raunin varð en ljóst er að það fólk sem stendur nú í brúnni kallar ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Það er nefnilega þannig að bætt kjör verkafólks í landinu verða ekki til af sjálfu sér heldur eru þau afrakstur áratugalangrar baráttu sem markvisst þarf að halda áfram.
Nýgerðir kjarasamningar hafa verið kallaðir „lífskjarasamningarnir“ þar sem verkalýðsforystan, atvinnurekendur og stjórnvöld komu sér saman um launahækkanir verkafólks sem og aukins sveigjanleika vinnutíma, lækkun skatta og lægri vaxta. Megin áhersla samningsaðila var að hækka laun tekjulægstu hópanna, sem er hlýtur að teljast eðlilegt forgangsmál á Íslandi í dag.
Um slíka samninga verður að ríkja sátt bæði meðal verkalýðsforystunnar og atvinnurekenda. Traust á milli þessa hópa er lykilatriði til þess að tryggja það að samningar haldi og velmegun landsmanna geti aukist.
Þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið sagt um hina nýju verkalýðsforystu, og sumir jafnvel gengið svo langt að saka hana um að vera „ógn við efnahagslegan stöðugleika“, hefur það sýnt sig að þar á bæ ber fólk virðingu fyrir gerðum samningunum. Eðlilega vill forystufólk að sama skapi fylgja því eftir að umsamin réttur skili sér til launafólks.
Á hinn bóginn verður ekki annað sagt en að það sé ömurlegt að horfa upp á stórfyrirtæki bregðast við samningum með því að hækka vöruverð sem nemur launahækkunum kjarasamninga. Slíkt er ekkert annað en aðför ákveðinna atvinnurekenda að kjarasamningum. Eftir að þessi ósvífni kom fram leið ekki á löngu þar til að hvatning um sniðgöngu á vörum fyrirtækisins birtist á samfélagsmiðlunum. Fyrir mitt leyti get ég hikstalaust sagt að þetta fékk mig til þess að skoða sérstaklega innkaup heimilisins og hvaða vara fjölskyldan neytir.
Með þetta fyrir augum er eðlilegt að maður spyrji sig: Hverjir eru það sem eru ógn við hinn efnahagslega stöðugleika? Er það verkalýðshreyfingin eða eru það ef til vill ákveðnir atvinnurekendur? Svari nú hver fyrir sig.
Á 1. maí ár hvert eru allir minntir á rétt verkafólks til sanngjarnra launa fyrir vinnuframlag sitt. Ég vona að þeir kjarasamningar sem nú hafa verið samþykktir verði gæfuspor fyrir launafólk.
Ég óska bæjarbúum til hamingju með daginn á baráttudegi verkalýðsins.
Njáll Ragnarsson
Oddviti Eyjalistans
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst