ÍBV tók á móti KA í leik í botnbaráttu Pepsi Max-deildar karla í gær, sunnudag.
KA byrjaði leikinn betur og uppskáru mark á 21. mínútu er Elfar Árni Aðalsteinsson skallaði í markið af stuttu færi. Þannig stóðu leikar í hálfleik 0-1. Þegar aðeins fjórar mínútur voru liðnar af síðasti hálfleik fengu KA menn dæmda á sig víti. Gary Martin steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi, 1-1.
Lítið annað markvert gerðist í leiknum þar til á síðustu mínútu uppbótatíma að ÍBV fékk dæmt á sig víti. Þá held ég að flestir hafi afskrifað stigið enda dæmigert fyrir ÍBV í sumar að tapa stigum á síðustu mínútum leiksins. En Halldór Páll Geirsson, markvörður ÍBV, var ekki á þeim buxunum og gerði sér lítið fyrir og varði stórglæsilega og tryggði þar með ÍBV sitt sjötta stig. Fyrsta stigið síðan 2. júní og fyrsta stigið undir stjórn Ian Jeffs.
En það er hætt við því að þetta stig sé oflítið og ofseint og liðið sé kolfallið þó möguleiki sé fyrir hendi tölfræðilega séð. Næsti leikur ÍBV er næstkomandi laugardag á Skaganum þar sem þeir mæta ÍA. En síðustu stig ÍBV og eini sigurleikurinn var einmitt gegn ÍA í Eyjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst