Í lok júní undirrituðu Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja og Dr. Janus Guðlaugsson íþrótta- og heilsufræðingur samstarfssamning um heilsueflingar- og rannsóknarverkefnið „Fjölþætt heilsuefling 65+ í Vestmannaeyjum – Leið að farsælum efri árum.“ Í doktorsverkefni Janusar var sýnt fram á að með markvissri þátttöku í fyrirbyggjandi heilsueflingu eldri aldurshópa jókst hreyfigeta70-90 ára einstaklinga, afkastagetu þátttakenda batnaði, sér í lagi þol, styrkur og hreyfigeta. Þá jókst dagleg virkni hinna eldri samhliða því að lífsgæðin bötnuðu. Einnig var sýnt fram á að draga mætti úr áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma með markvissri þjálfun, fræðslu um bætta næringu og aðra heilsutengda þætti. Erlend rannsóknarverkefni leiða einnig líkum að því að með aukinni og markvissri hreyfingu megi draga úr sjúkdómum sem hafa áhrif á heilastarfsemi eins og heilabilun og Alzheimer. Þessir sjúkdómar eru vaxandi áhyggjuefni samfélaga á næstu árum og áratugum þegar kemur að heilbrigði og heilbrigðisvanda.
Janus er á ferðinni í Eyjum í dag og verður með kynningu í sal Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum kl. 17 og Janus sagði alla velkomna þangað. „Hvort sem þeir væru yfir eða undir 65 eða 67 ára aldri. Þar förum við yfir í hverju verkefnið er fólgið og væntanlegan ávinning. Næstu daga eftir fundinn verður svo opið fyrir skráningar og er hægt að skrá sig nú þegar á slóðinni: www.janusheilsuefling.is/skraning. Fyrstu vikuna í september fara svo fram mælingar og viku síðar eða mánudaginn 9. september hefst svo fyrsta æfingarvikan.
Við verðum yfirleitt með þolæfingar í Herjólfshöllinni á mánudögum yfir vetrartímann. Á þriðjudögum og fimmtudögum er svo styrktarþjálfun í Litla Hressó í íþróttahúsinu. Þátttakendur fá æfingaáætlun sem þeir fylgja í tækjasalnum. En einnig fá þeir með sér heimaáætlun sem auðvelt er að fylgja aðra daga til að uppfylla alþjóðleg viðmið um daglega hreyfingu sem sett hafa verið fyrir eldri borgara.“
Lesa má ýtarlegt viðtal við Janus í blaði Eyjafrétta, sem dreift var til áskrifenda í dag.